Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eina lesbían í uppistandi á Íslandi

Mynd með færslu
 Mynd: Júnía Líf Maríuerla Sigurjó

Eina lesbían í uppistandi á Íslandi

12.07.2019 - 14:10

Höfundar

Á mánudaginn næstkomandi mun Gaukurinn standa fyrir sérstöku uppistandskvöldi sem kallast Sálarflæði. Sviðið verður hertekið af konum og hinsegin fólki en kvöldinu er ætlað að skapa pláss fyrir þá þjóðfélagshópa sem hallar á í grínbransanum á Íslandi.

Kimi Tayler grínisti og einn þeirra uppistandara sem kemur fram á uppistandskvöldinu Sálarflæði næstu mánudaga á Gauknum var að eigin sögn mikill trúður í grunnskóla. Snemma varð ljóst hvert stefndi. Hún byrjaði strax á unglingsárunum að skrifa grínsketsa og hefur ekki hætt að grínast síðan. Það var þó ekki fyrr en hún varð 26 ára sem hún ákvað að fara alla leið og kýla á uppistandið. „Ég er nefnilega enginn adrenalínfíkill að upplagien það að standa fyrir framan stóran hóp af ókunnugum og reyna að fá þau til að hlæja gefur mér samt kikk. Svipað kikk og fallhlífar- eða teygjustökk fyrir þá sem það stunda. Þegar það tekst og ég fæ þennan hlátur, úff það er sko engin tilfinning eins góð.“

Kjaftæði að konur séu síður fyndnar

Mun færri konur en karlar virðast leggja stund á uppistand þó þeim fari blessunarlega fjölgandi í seinni tíð. Kimi telur líklegt að það sé vegna þess að umhverfið geti verið ógnandi. „Þetta getur verið það sérstaklega þegar maður er að byrja.“

En eru konur síður fyndnar en karlar? „Nei það er sko algjört kjaftæði,“ segir hún ákveðin og hlær. „Það er ekkert í líffræðinni sem segir til um að konur séu minna fyndnar. Ég tel að fyrri kynslóðir kvenna séu aldar upp við þau skilaboð að þær eigi að vera kurteisar og þögular og láta lítið á sér bera. Þess vegna held ég þær hafi verið ragari í gegnum tíðina við að þora upp á sviðið. Blessunarlega eru margar stórkostlegar konur að gera frábært uppistand í dag.“

Konur og hinsegin fólk oft persónulegra í gríni sínu

Hver er hugmyndin að baki Sálarflæði?  „Þegar ég flutti fyrst til landsins var mér tjáð að ég væri eina lesbían í uppistandi á Íslandi og ennfremur að það væru mjög fáar konur. Grínbransinn á Íslandi er frekar einsleitur. Við viljum breyta þessu og erum að gera það. “

Hún segir karla og konur alls ekki segja svo ólíka brandara. „Ef þú ert fyndin, þá ertu bara fyndin. Það er ekkert flóknara og gildir um bæði konur og karla. Hinsvegar hef ég orðið vör við að þær konur og hinsegin fólk í uppistandi eiga það til að vera sérstaklega opinská og flétta sitt persónulega líf inn í uppistandið á einlægan hátt. Sálarflæðið er fullkominn vettvangur fyrir það að leyfa sálinni að flæða og hlæja með.“

Myndina í efst í fréttinni tók Júnía Líf Maríuerla Sigurjónsdóttir.

Tengdar fréttir

Leiklist

Hlegið í skjóli fjöldans

Sjónvarp

Hannah Gadsby í Eldborg

Leiklist

„Mið-Ísland er bara ofmetið Morfís-lið"