Ein minnsta fjölgun smita í Evrópu

Mynd: RÚV / RÚV
Um 60% af þeim 61 sem greindist með kórónuveirusmit hér á landi frá því í gær, voru í sóttkví. Þetta kom fram á upplýsingafundi Almannavarna sem hófst klukkan 14. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á fundinum að þessar niðurstöður styðji enn frekar við þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í hér á landi; að halda fólki í sóttkví til þess að forða því að það smiti aðra. Nánast hvergi í Evrópu hefur greindum smitum fjölgað jafn hægt og hér á landi. Ekkert samgöngubann er á teikniborðinu.

Allir sem greinst hafa síðan í gær greindust á veirufræðideild Landspítalans. Þar reyndust 16% sýna jákvæð, sem er svipað hlutfall og verið hefur. Engin sýni voru tekin hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Á Landspítalanum eru nú 11 manns með staðfest smit. Þar af eru tveir á gjörgæsludeild, en enginn í öndunarvél.

Þórólfur sagði á fundinum að faraldurinn væri enn í uppsveiflu. Töluverðar sveiflur væru hins vegar á milli daga og því væri mikilvægt að fara varlega í að túlka þróunina á milli daga.

Ekkert samgöngubann

Þórólfur sagði að erfitt væri að segja til um hvort faraldurinn stefni í bestu eða verstu spá. Það skýrist betur þegar spálíkan verði uppfært, sem gerist annað hvort í dag eða á morgun. Þórólfur sagði að teymi frá Háskóla Íslands, sem vinnur að því að gera spálíkanið, verði á upplýsingafundinum á fimmtudaginn.

„Reiknilíkan Háskólans sýnir áfram að meðaltalsaukning hér á Íslandi per dag per þúsund íbúa er áfram ein sú minnsta í Evrópu og það styður okkur enn frekar í þessum aðgerðum sem við höfum verið að grípa til,“ segir Þórólfur.

Þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í hér á landi, að greina veiruna snemma, beita sóttkví og hvetja fólk til hreinlætis og að virða fjarlægðarmörk, segir Þórólfur að hafi því skilað árangri.

Þá leggur Þórólfur áherslu á að áfram sé mjög sjaldgæft að smit greinist hjá börnum.

Skortur á sýnatökupinnum sé ákveðið áhyggjuefni en hann vonist til að fleiri pinnar berist síðar í þessari viku. Þá sé verið að skoða pinna sem fyrirtækið Össur getur útvegað.

Loks sagði Þórólfur að töluvert hafi verið rætt um samgöngubann, þar sem fólki yrði bannað að ferðast. Slíkt bann myndi hins vegar skila mjög litlu. Það sýni bæði reynslan og fræðin. Í mesta lagi væri hægt að fresta faraldri í einhverja daga eða vikur með slíku banni. Vandinn héldi bara áfram þegar opnað yrði að nýju fyrir samgöngur, og að þá myndi nýr faraldur birtast. Samgöngubann sé því ekki á teikniborðinu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi