Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ein með öllu í dalnum og drullunni um helgina

Mynd með færslu
 Mynd:

Ein með öllu í dalnum og drullunni um helgina

31.07.2019 - 14:45

Höfundar

Það verður mikið um að vera um verslunarmannahelgina og fjölmargar hátíðir víða um land. Fulltrúar Rásar 2 verða á ferð og flugi og fara á Neistaflug og Eina með öllu, verða í dalnum og í drullunni og spila réttu tónlistina fyrir inni- og útipúka alla helgina.

Dagskrárgerðarfólk Rásar 2 verður með puttann á púlsinum alla verslunarmannahelgina og sér til þess að engum þurfi að leiðast, hvar sem fólk er statt á landinu. Þau Andri Freyr Viðarsson og Lovísa Rut Kristjánsdóttir verða í Útvarpshúsinu í Efstaleiti og í miðbæ Reykjavíkur og taka meðal annars púlsinn á gestum tónlistarhátíðarinnar Innipúkans sem haldin verður úti á Granda í Reykjavík. Útvarpað verður beint frá tónleikum Einnar með öllu á Akureyri, auk þess sem dagskrárgerðarmenn verða á Neistaflugi í Neskaupstað, Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og Mýrarboltanum á Ísafirði. Þá verða þeir í þéttu sambandi við lögreglu og skipuleggjendur hátíða um allt land. 

Á föstudag situr Andri Freyr Viðarsson við stýrið í Síðdegisútvarpinu og verður þátturinn með léttara sniði en ella. Þórður Helgi, einnig þekktur sem Doddi litli, keyrir svo helgina af stað með stæl á föstudagskvöldið. Þar verður rétta tónlistin í fyrirrúmi auk þess sem Doddi tekur púlsinn á þjóðinni í upphafi verslunarmannahelgarinnar og hringir í vel valda viðmælendur. Við keflinu tekur svo Ingi Þór Ingibergsson með Næturvaktina og sér til þess að fólk fari brosandi í háttinn. 

Á laugardagsmorgun mæta Björg Magnúsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson snemma og hella upp á Morgunkaffið. Kaffið verður með hefðbundnu sniði en tekur eflaust mið af helgarstemningunni. Birgir Örn Steinarsson kemur með sinn sívinsæla þátt 8-9-0 þar sem þemað hverfist um íslenska verslunarmannahelgartónlist.  Vinsældalistinn verður á sínum stað í umsjón Rögnu Kjartansdóttur og um kvöldið verða þau Andri Freyr og Lovísa Rut í sambandi við fólk á hátíðum í öllum landshornum, þau slá á þráðinn til Helgu Margrétar Höskuldsdóttur sem verður í beinni frá Vestmannaeyjum, Hlyn Ben sem verður á Neistaflugi og Davíð Roach sem verður í drullunni fyrir vestan. Um tíuleytið verður svo útvarpað frá ólgandi sveitaballi hljómsveitarinnar Babies sem haldið var í hljóðveri Rásar 2 á dögunum og til að ramma inn skemmtilegan laugardag sér Þórður Helgi um Næturvakt Rásar 2 fram á rauðanótt.

Mynd með færslu
 Mynd: Tekzone - RÚV
Verum rétt stillt um verslunarmannahelgina.

Á sunnudagsmorgun kemur Jón Ólafsson galvaskur eftir sumarfrí með þátt sinn Sunnudagsmorgun. Gestur Jóns verður Lilja Valdimarsdóttir hornleikari. Eftir hádegi verður Gígja Hólmgeirsdóttir í beinni frá Akureyri. Um miðbik dags býðst hlustendum að núlla sig aðeins út fyrir átök kvöldsins undir tónlist Velvet Underground en undir kvöldmat mætir Lovísa á vaktina og heyrir eflaust í fréttariturum víða um land. Klukkan 21.30 hefst svo bein útsending frá Einni með öllu og Íslensku sumarleikunum á Akureyri. Þar koma fram á sérstökum sparitónleikum þau Omotrack, Soffía Ósk, Katrín Birna, Rúnar Eff, ClubDub, Flóni og Svala Björgvins. Næturvaktin verður svo í höndum Inga Þórs Ingibergssonar.

Á mánudagsmorguninn sér Andri Freyr um að landsmenn fari réttu megin fram úr rúminu eða tjaldinu og svo taka Hrafnhildur og Lovísa við hljóðnemanum og fylgja þreyttum hátíðargestum heim eftir gleðina. Þórður Helgi mætir á vaktina um kl. 16 og trappar fólk niður og til þess að reka endapunktinn á verslunarmannahelgarvaktina kemur Andrea Jónsdóttir og klárar helgina með stæl. 

Munum að skemmta okkur fallega um helgina, aka varlega og vera fyrst og fremst rétt stillt á Rás 2 sem er útvarp allra landsmanna.