Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Eigum að veiða hrefnuna sem aldrei fyrr“

28.07.2015 - 11:43
epa04011024 Foreign Minister of Iceland Gunnar Bragi Sveinsson speaks during a press conference with his Finnish counterpart Erkki Tuomioja (not pictured) in Helsinki, Finland, 07 January 2014.  EPA/KIMMO BRANDT FINLAND OUT
 Mynd: EPA - COMPIC
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir að Íslendingar megi aldrei gefa eftir rétt sinn til að veiða hvali. Hann segist ekki hafa lagt til að Íslendingar drægju úr hvalveiðum sínum, bara að möguleikinn yrði skoðaður.

Gunnar Bragi sagði í viðtali við Skessuhorn í síðustu viku að Íslendingar ættu að íhuga að draga úr hvalveiðum sínum.

„Það hefur verið athyglisvert að sjá að menn kjósa að túlka þessi orð mín með alls konar hætti, að það sé um stefnubreytingu að ræða og ég veit ekki hvað og hvað, sem er náttúrlega bara vitleysa. Það er einfaldlega verið að velta upp praktískum hlutum,“ segir Gunnar.

Megum aldrei gefa eftir rétt til að veiða hvali
Gunnar segir að með ummælum sínum hafi hann viljað minna á að hvalveiðar Íslendinga sæti gagnrýni erlendis og leggja til að menn skoði hvort það þjóni hagsmunum landsins betur að draga úr hvalveiðum.

„Ég kveð ekkert upp úr um það hvort að við eigum að gera það eða ekki. Ég reyndar ítreka í viðtalinu að við megum aldrei gefa eftir rétt okkar til að veiða hvali. Ég vil líka taka það fram að hrefnan er undanskilin við þetta. Ég held að við eigum að veiða hrefnuna sem aldrei fyrr,“ segir Gunnar.

„En þegar kemur að hagsmunum þá þurfum við að velta því fyrir okkur hvort við höfum meiri eða minni hagsmuni af því að stunda hvalveiðar óbreyttar. Er möguleiki að ná samkomulagi eða sátt um hvalveiðar? Ég veit það ekki,“ segir Gunnar.

Karpa um hvalveiðar
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, brást hart við ummælum Gunnars í síðustu viku. Jón sagði að hvalveiðar blómstruðu samhliða ferðaþjónustu og réttast væri að auka veiðarnar við landið.

„Ég hef ekkert um ummæli Jóns Gunnarssonar um þetta segja. Hann hefur sína skoðun á þessu. Það truflar mig ekki neitt. Ég hins vegar taldi það skyldu mína að velta þessu upp, hvort að það geti þjónað hagsmunum okkar. En það er ekki mitt að ákveða það,“ segir Gunnar Bragi.