Eigandi Húh!-sins sér eftir einkaleyfinu

Mynd með færslu
 Mynd: Hugleikur Dagsson - Facebook

Eigandi Húh!-sins sér eftir einkaleyfinu

27.03.2018 - 13:44

Höfundar

Gunnar Þór Andrésson, sem fékk einkaleyfi á orðmerkinu „HÚH!“, efast um að framleiðsla hans muni líta dagsins ljós héðan í frá í ljósi þess sem undan er gengið. Hann kveðst ætla að taka verkefni sitt til endurskoðunar og viðurkennir fúslega að hann sjái eftir því að hafa lagt af stað í þessa vegferð í ljósi þeirrar gagnrýni sem hann hafi fengið.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Gunnar Þór sendi fréttastofu RÚV nú skömmu eftir hádegi. 

Gunnar lenti heldur óvænt í hringiðu fjölmiðla þegar Hugleikur Dagsson, einn þekktasti skopmyndateiknari landsins, greindi frá því á Facebook að hann þyrfti að hætta framleiðslu á bol sem hann teiknaði eftir velgengni Íslands á EM. Á bolnum væri að finna orðið „Hú!“ en í ljós hafi komið að Gunnar Þór átti einkaleyfi á að prenta orðmerkinguna „HÚH!“ á fatnað og drykkjarvöru.  Einkaleyfastofa hefði síðan komist að þeirri niðurstöðu að þessi tvö orð væru of lík.

Málið vakti mikla athygli og um það var meðal annars fjallað á vef BBC. Gunnar Þór segir að hann skiljji að hluta til þá gagnrýni sem framtak hans hafi fengið. „[E]inkum þá gagnrýni sem lútir að því að almenningshugtak hafi verið einkavætt.“ Hann hafi hreinlega ekki leitt hugann að þessu.  Hann skilji jafnframt þá gagnrýni sem snúi að því að hafa beðið Hugleik um að láta af sölu bolanna. 

Gunnar segir að hann hafi orðið fyrir miklu áreiti og fengið mörg andstyggileg skilaboð. Nafni hans hafi verið úthúðað í athugasemdakerfum og einnig út fyrir landsteinana. „Mér hefur verið hótað, ég er kallaður öllum illum nöfnum og einhverjir hafa séð ástæðu til þess að pósta heimilisfangi mínu og símanúmeri.“ Hann hafi tekið þetta nærri sér enda óvanur því að nafn hans sé í opinberri umræðu. 

Hann harmar að Hugleikur Dagsson skuli ekki hafa rætt við sig áður en hann sagði sögu sína opinberlega. Upplifun hans hafi verið sú að Hugleikur hafi lýst honum með niðrandi hætti á kostnað æru hans og persónu.  Hann hrósar honum þó að ánafna helminginum af ágóða bolanna til Krabbameinsfélagsins. „Ég vona að félagið muni halda áfram að njóta góðs af sölu bolanna um lengri tíma en ég hef að minnsta kosti ákveðið að aðhafast ekkert frekar í þessu máli.“

Yfirlýsingu Gunnars má lesa í heild sinni hér að neðan.

Varðandi HÚH!

Það er óhætt að segja að síðustu dagar hafa verið mér óþægilegir. Ég finn hjá mér þörf að segja frá minni hlið.

Sumarið 2016 fékk ég hugmynd um að búa eitthvað til í kringum orðmerkið „HÚH!“. Ég sótti um skráningu á orðmerkingunni hjá Einkaleyfastofu í flokkunum fatnaði og drykkjarvörum og nokkru síðar fékkst orðmerkingin skráð. Að gefnu tilefni er rétt að árétta að skráningin nær eingöngu til fatnaðar og drykkjarvara og hefur því engin áhrif á aðra notkun orðmerkisins þó misskilnings hafi gætt um annað.

Hef ég verið að vinna að undirbúningi framleiðslu fatnaðar en læt vera að fjalla um það hér, enda ólíklegt að sú framleiðsla muni líta dagsins ljós héðan í frá í ljósi þess sem undan er gengið.

Þó vil ég taka fram að þankagangur minn á þessum tíma var að verja frítíma mínum í þetta verkefni og tilgangur minn með skráningunni var að auka líkurnar á því að vel tækist til. Ég taldi að ef verkefninu mínu gengi vel gæti tvennt mögulega gerst. Annaðhvort myndi einhver stærri aðili fara að gera það nákvæmlega sama og ég hugðist gera eða einhver myndi banna mér það á grundvelli einkaréttar. Í raun og veru var ég m.a. að reyna að koma í veg fyrir að lenda í þeirri aðstöðu sem Hugleikur Dagsson lenti í af mínum völdum.

Það var ekki fyrr en í desember 2017 sem ég varð áskynja um að orðmerkið væri notað á bolum sem seldir eru á vefsíðunni dagsson.com. Mér skilst að til þess að réttur minn haldist þarf ég að koma í veg fyrir notkun annarra á orðmerkinu hvað varðar fatnað og drykkjarvörur. Hafði ég því samband við starfsmann dagsson.com og upplýsti hann um að ég ætti réttinn til að setja orðmerkið á fatnað.

Fyrir u.þ.b. tveimur vikum hafði ég aftur samband við starfsmann vefsíðunnar og óskaði eftir því að hætt yrði að selja þennan bol en lýsti því jafnframt yfir að ég væri til í að skoða samningaleið. Ég vil árétta að minn skilningur er sá að ef vörumerkishafi bannar ekki öðrum að nota vörumerkið þá skerðist réttur rétthafa til að nota það.

Á föstudaginn sl. verð ég svo var við það að nær allir fjölmiðlar landsins eru að reyna að hafa samband við mig. Eftir ábendingu vina og fjölskyldu verður mér ljóst að ég hef verið þjófkenndur þrátt fyrir að hafa engu stolið.

Fyrir þá sem þekkja mig ekki þá er ég 35 ára gamall, eins barns faðir, starfa sem grunnskólakennari og sinni jafnframt dómgæslu í körfuknattleik. Er þetta í fyrsta skipti sem ég hrindi hugmynd af þessum toga í framkvæmd. Ég skil að hluta til þá gagnrýni sem framtak mitt hefur fengið, einkum þá gagnrýni sem lútir að því að almenningshugtak hafi verið einkavætt. Hafði ég hreinlega ekki leitt hugann að þessu. Jafnframt skil ég þá gagnrýni sem snýr að því að hafa beðið Hugleik að láta af sölu bolanna. Mun ég taka þetta verkefni mitt til endurskoðunar en ég skal fúslega viðurkenna að ég sé eftir því að hafa lagt af stað í þessa vegferð í ljósi þeirrar gagnrýni sem ég hef fengið.

Ég hef orðið fyrir miklu áreiti út af þessu máli og fengið mörg andstyggileg skilaboð. Þá hefur nafni mínu verið úthúðað í athugasemdakerfi landsins og einnig út fyrir landsteinana. Mér hefur verið hótað, ég er kallaður öllum illum nöfnum og einhverjir hafa séð ástæðu til þess að pósta heimilisfangi mínu og símanúmeri. Ég skal alveg viðurkenna að ég hef tekið þetta nærri mér enda óvanur því að nafn mitt sé í opinberri umræðu. Enn fremur er mér ljóst að það sem fer á veraldarvefinn hverfur ekki.

Hvað Hugleik Dagsson varðar, þá harma ég að hann hafi ekki talað við mig áður en hann fór til fjölmiðla og upplifun mín var sú að hann lýsti mér með niðrandi hætti. Það að hann kaus að fara til fjölmiðla þykir mér miður og það sé gert á kostnað æru minnar og persónu.

Þó vil ég hrósa honum með að ánafna helmingnum af ágóða hans af sölu bolanna til Krabbameinsfélagsins. Það er að minnsta kosti gott að vita að þessi uppákoma hafi leitt til einhvers góðs. Ég vona að félagið muni halda áfram að njóta góðs af sölu bolanna um lengri tíma en ég hef að minnsta kosti ákveðið að aðhafast ekkert frekar í þessu máli.

Að lokum vil ég taka fram að ég hef ekki í hyggju að tjá mig frekar um þetta mál á opinberum vettvangi.

Virðingarfyllst,

Gunnar Þór Andrésson.

 

 

Tengdar fréttir

Innlent

Eigandi Húh!-sins til í viðræður við Hugleik