Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Eggjaskandall skekur Evrópu

10.08.2017 - 11:32
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Heilbrigðisyfirvöld í Hollandi og Belgíu létu í morgun til skarar skríða gegn eggjaframleiðendum og seljendum eftir að í ljós kom að skordýraeitur er að finna í eggjum sem seld eru til manneldis. Málið er nú rannsakað sem sakamál undir stjórn saksóknara í hafnarborginni Antwerpen. Belgíska lögreglan gerði húsleit víða í morgun vegna rannsóknarinnar. Eggjaskortur gæti verið yfirvofandi.

Egg sem hafa komist í snertingu við skordýraeitrið fipronil hafa fundist í Belgíu, Frakklandi, Þýskalandi, Svíþjóð, Sviss, Bretlandi og Lúxemborg. Áætlað var að um 21 þúsund egg hefðu verið flutt til Bretlands en nú er talið að þau séu um 700 þúsund.  Milljónir eggja hafa verið fjarlægðar úr hillum verslana í ríkjunum átta. Bæði Frakkar og Þjóðverjar hafa einnig hafið rannsókn á brotum hollenskra eggjabænda. 

Belgar hafa bannað innflutning á hollenskum eggjum en grunur leikur á að belgískir bændur gætu hafa nýtt sér aðferðir starfsbræðra sinna. Christian Schmidt, landbúnaðarráðherra Þýskalands, segir framferði hollensku eggjabændanna glæpsamlegt en yfirvöld fjölda Evrópuríkja hafa hafið rannsókn á eggjaframleiðslu. 

Fáir flytja út jafn mikið af eggjum og Hollendingar. Frakkar hafa gagnrýnt slakt upplýsingaflæði milli nágrannaríkjanna og segja mjög alvarlegt ef hollensk yfirvöld hafi setið á þessum upplýsingum. Hollenska matvælastofnunin hafnar því að hafa vitað af þessu síðan 2016, eins og frönsk yfirvöld hafa haldið fram. 

Skordýraeitrið fipronil er jafnan notað til að losna við flær og lýs úr dýrum. Evrópusambandið bannaði að eitrið væri notuð á dýrum sem kæmu að framleiðslu til manneldis, til að mynda hænsnum. Í stórum skömmtum getur það haft áhrif á lifur og nýrnastarfsemi manna. Vandi hollenskra eggjabænda er rakinn til hollenska fyrirtækisins Chickfriend. Bændur í Hollandi og Belgíu segjast margir hverjir hafa leigt þjónustu fyrirtækisins til að sjá um hænsnin og þar liggi rót vandans.