„Ég vissi aldrei hver faðir minn var“

28.12.2017 - 11:36
Mynd: Viktoría Hermannsdóttir / Viktoría Hermannsdóttir
Saga Árna Jóns Árnasonar og David Balsam, líklegum hálfbróður hans, var rakin í þættinum Á ég bróður á Íslandi?

Í þættinum er fylgst með leit bandaríkjamannsins Davids Balsams að hálfbróður sínum á Íslandi. Faðir Davids, sinnti herskyldu á Íslandi í seinni heimstyrjöldinni og sagði David frá því rétt áður en hann lést að hann ætti barn á Íslandi. Hann sagði honum nafn móðurinnar en vissi engin frekari deili á þeim.

Móðir Árna hét Guðbjörg Tómasdóttir og var fædd árið 1898. Hún var því 47 ára gömul þegar hann fæddist árið 1945. Hún hafði misst eiginmann sinn sex árum fyrr í hörmulegu slysi og nefndi soninn eftir eiginmanninum sem hún hafði misst. Hann var einnig kenndur við hann.

Mynd með færslu
Árni Jón og Davíd  Mynd: Viktoría Hermannsdóttir
Hálfbræðurnir alsælir með hvorn annan.

Árni fékk aldrei að vita hver faðir sinni væri, hann vissi að hann hefði verið hermaður en fékk ekki að vita nafnið. Hann segir greinilega mikla skömm hafa fylgt komu sinni í heiminn, eitthvað sem hann hafi alltaf fundið fyrir þó það væri ekki sagt beint við hann.

„Ég var hálfgerður aðskotahlutur.  Þetta var áfall fyrir fjölskylduna þegar ég kom til sögunnar. Það var alveg greinilegt. Mamma var alltaf svona, virkaði sem buguð kona einhvern veginn,“ segir Árni. Hann átti ekki í miklum tilfinningatengslum við fjölskyldu sína og fannst alltaf vera eitthvað óútskýrt bil milli þeirra og hans.„Ég komst aldrei í neinn trúnað við neinn í raun og veru. Það var alltaf ákveðin fjarlægð fannst mér, hvort sem það var mér að kenna eða eins og maður segir. Ég náði aldrei neinum trúnaði við þetta fólk,“ segir hann en tekur fram að þetta hafi verið gott fólk. Hann var svo í sambúð með bróður sínum öll sín fullorðinsár. Bróðir hans er núna á hjúkrunarheimili og Árni fer til hans á hverjum degi og er með honum frá morgni til kvölds.

Mynd með færslu
 Mynd: Viktoría Hermannsdóttir
Þeir sýndu hvor öðrum myndir af fjölskyldum hvors annars.

Þegar Árni var barn spurði hann móður sína oft út í það hver pabbi sinn væri en hún tók jafnan illa í þá spurningu og hann fékk engin svör. „Ég vissi að ég var ástandsbarn en ég vissi ekki hvort það var Breti eða Bandaríkjamaður en mér fannst samt líklegast að það væri Ameríkani.“ Þegar Árni og David hittust loks fór mjög vel á með þeim. „Þú lítur meira út eins og faðir minn heldur en ég,“ sagði David við Árna. Það kemur í ljós að þeir hafa átt svipaða æsku, áttu í litlum tilfinningatengslum við foreldra sínar, verið einangraðir og átt fáa vini. „Þetta var frábær fundur í alla staði. David sýndi mér myndir af fjölskyldu sinni og lýsti þeim mjög vel. Þetta virðist vera elskulegt fólk og vel í sveit sett,“ segir Árni. 

Heyra má í þættinum meira um sögu Árna sem er að mörgu leyti mjög sérstök og leit Davids að bróður sínum á Íslandi. David kom til Íslands í október og þá hittust þeir Árni í fyrsta skipti. David fékk senda mynd af Árna áður en hann kom til landsins og sagði þá enga þörf vera á DNA prófi þar sem Árni væri nauðalíkur föður sínum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/samsett mynd - Facebook
Faðirinn Roderick Donald Balsam.
viktoriah's picture
Viktoría Hermannsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi