Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Ég verð bara að bíða“ - viðtalið í heild

24.09.2015 - 20:11
Mynd: Kastljós / RÚV
„Í mínum huga var það alltaf ljóst að tengslin yrðu alltaf mikil. Bara hvernig samskipti mín voru við þá,“ segir Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir, leikkona, sem hefur ekki séð dóttur sína í tvö ár eftir að hafa gengið með barn fyrir frænda sinn og eiginmann hans.

Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld.  Guðlaug sagðist vilja segja sína sögu - meðal annars til að aðrar konur hugsuðu sig tvisvar um áður en þær gerðust staðgöngumæður. 

Guðlaug sagðist ekki hafa hugsað sig sem staðgöngumóður. „Ég gekk alla tíð út frá því að hún yrði þeirra barn, að hún ætti heima hjá þeim og að þeir yrðu hennar foreldrar. Hún ætti síðan mömmu annars staðar - hún ætti bara þessa mömmu sem hún ætti mikil og innileg samskipti við.“

Guðlaug segir að það sem hafi sennilega hrint þessari atburðarás af stað hafi verið sú ósk hennar að til að milda höggið fengi hún að hafa dótturina aðra hvora helgi. „Við það fór allt á hliðina.“

Feðurnir drógu úr samvistum og lokuðu loks á heimsóknir Guðlaugar.  Hún segir að þeir hafi sakað sig um dómgreindarbrest, hvað hún hafi glímt við mikil geðræn vandamál og hvað hún hefði boðið þeim upp á mikinn tilfinningarússíbana.

Guðlaug vísaði því á bug að hún hefði átt við geðræn vandamál að stríða en sagði að vissulega hefðu fyrstu mánuðirnir verið sveiflukenndir. Síðan hefði það runnið upp fyrir henni að þeir hefðu verið að fá sér staðgöngumóður „en ég var að eignast barn með þeim.“

Guðlaug reyndi að fá ættleiðingunni hnekkt og líffræðilegur faðir stúlkunnar reyndi að aðstoða hana eftir fremsti megni en allt kom fyrir ekki. Eftir ættleiðingu eiga líffræðilegir foreldrar engan rétt. „Ég verð bara að bíða - börn leita uppruna síns.“

Hægt er að horfa á viðtalið við Guðlaugu í heild sinni hér að ofan.

einar's picture
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV