Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Ég sé sjálfan mig sem fíflið í tarotspilunum“

Mynd: Snorri Ásmundsson / RÚV

„Ég sé sjálfan mig sem fíflið í tarotspilunum“

05.09.2019 - 16:05

Höfundar

Boðið er til hugleiðslustundar í Egilshöll um helgina þar sem dýrðlingurinn Hilaríon mun líkamnast í myndlistarmanninum Snorra Ásmundssyni. Snorri hefur aldrei gert svona lagað áður en segir að líf hans snúist alfarið um traust.

Myndlistarmaðurinn Snorri Ásmundsson býður til hugleiðslustundar í Egilshöll laugardaginn 7. september og markar sú stund einnig stofnun nýrrar jógahreyfingar, Sana Ba Lana. Þar tekur meistari Hilarion, heilari og prestur í musteri sannleikans, á móti gestum og leiðir inn í víddir hugans. „Hilarion var dýrlingur í Atlantis en tókst að flýja til Grikklands áður en eyjan sökk í hafið. Þar stofnaði hann sannleiksmusteri sem síðar meir þróaðist í Véfréttina í Delfí. Hilarion hefur ítrekað endurfæðst í gegn um söguna og birst tortryggnum og trúlausum,“ segir í kynningu á viðburðinum í Egilshöll.

„Meistari Hilaríon bankaði upp á líf mitt bersýnilega fyrir svona tuttugu og fimm árum síðan. Það var mynd sem móðir mín átti, var þó ekki mjög hrifin af, og fékk frá föður sínum,“ segir Snorri um sín fyrstu kynni af meistara Hilaríon. „Ég tók myndina, hengdi upp á vinnustofunni minni og daginn eftir kom vinkona mín í heimsókn sem er bókmenntafræðingur. Hún hrekkur í kút og spyr mig hvar ég hafi fengið þessa mynd. Ég segi henni það og hún svarar því til að hún hafi séð þessa mynd í bók sem væri ófáanleg. Hún var gefin út um 1840 og faðir hennar hafði fengið hana að láni frá bókasafni frímúrara. Hún prentaði kaflann úr bókinni um þennan mann og kemur þá í ljós að þetta var meistari Hilaríon. Ég fór því að tengja við hann og hann hefur verið á sveimi í kringum mig. Hann hefur til dæmis bjargað mér þegar kviknaði á vinnustofunni minni, þá vakti hann mig um miðja nótt,“ segir Snorri.

Mynd með færslu
Snorri Ásmundsson sem meistari Hilaríon.

„Núna skulda ég honum það mikið, þarf að hleypa honum að. Ég ætla að gefa honum færi á að líkamnast mér,“ segir Snorri sem er spenntur fyrir uppákomunni en veit þó ekki við hverju er að búast. „Hilaríon var auðvitað mjög vel tengdur, þekkti aðra dýrðlinga. Hann starfaði með Pales Aþenu. Ég átta mig ekki almennilega á hvað þarna gæti gerst, ég hef aldrei gert svona áður. Ég veit ekkert gerist þarna í Egilshöll, hvað mun birtast. Þetta er mjög spennandi,“ segir Snorri sem treystir meistara Hilaríon að fullu. „Líf mitt gengur út á traust. Ég sé sjálfan mig sem fíflið í tarotspilunum. Ég dansa alltaf á barminum í fullu trausti. Líf mitt snýst aðallega um traust, enga praktík,“ segir Snorri.

Samhliða heilunarstundinni verður stofnað til nýrrar jógahreyfingar, Sana Ba Lana. Þar mun meistari Hilarion, heilari og prestur í musteri sannleikans, taka á móti gestum og leiða inn í víddir hugans. „Sana Ba Lana er eitthvað sem kom bara í hausinn á mér, í gegnum meistara Hilaríon. Ég skyldi þessi orð ekki og fór að skrifa þau niður, gúgglaði þau og þá kemur í ljós að Sana merkir heilbrigði, Ba þýðir sál eða Guð og Lana merkir tenderness eða eitthvað mjúkt og fallegt. Fyrir mér merkir þetta líka að Sana er nafnið á gosdrykkjaverksmiðjunni sem faðir minn átti sem barn og ég vann þar sem unglingur og svo auðvitað Lana del Rey en ég er mikill aðdáandi hennar,“ segir Snorri.

Þegar Snorri er spurður af því hvort hann sé að hæðast að þeim hópi Íslendinga sem stundar jóga og hugleiðslu segist hann ekki endilega vera viss um það. „Ég stunda sjálfur jóga og jújú, 80% íslenskra kvenna eru komin með jógakennararéttindi. Það er mikil vakning og það er mjög skemmtilegt en Sana Ba Lana mun sameina alla, því þegar þú ert í jóga þá lítur þá á aðra sem systkini þín. Þetta mun sameina alla jógaiðkendur frekar en sundra, ef einhver upplifir einhverja ógn þá er hinn sami að stunda jóga á skringilegum forsendum,“ segir listamaðurinn Snorri Ásmundsson sem ætlar að láta heilaranum Hilaríon líkama sinn í té í Egilshöll á laugardaginn.

Viðtal Sigmars og Gunnhildar Örnu við Snorra Ásmundsson í Morgunútvarpi Rásar 2 má heyra með því að smella á myndina efst í fréttinni.