Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ég heiti Samúel og ég er jólaplötufíkill“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég heiti Samúel og ég er jólaplötufíkill“

13.12.2019 - 16:41

Höfundar

Stórsveit Samúels Jóns Samúelssonar kíkti við í Stúdíó 12 og flutti þrjú jólalög. Sjálfur á Samúel Jón svo margar jólaplötur og geisladiska að hann segir að réttast væri fyrir sig að stofna stuðningshóp fyrir jólaplötufíkla sem gætu reglulega hist og rætt þessa áráttu sína.

Bandið flutti tvær ábreiður af þekktum jólalögum og frumfluttu jólalag eftir Arnljót Sigurðsson tónlistarmann sem nefnir sig Kraftgallinn um þessar mundir. Lagið er ska-skotið og heitir því viðeigandi nafni Skatan og í laginu lofsyngur Kraftgallinn sjálfur þorláksmessumáltíðina. Arnljótur hefur einnig samið dans við lagið sem lýsir sér svo:

Olnbogar út, þumalfingur á gagnaugun, vísifingur fer fram og svo vaggar maður sér eins og skatan í sjónum. 

Hægt er að sjá Arnljót taka skötudansinn í spilaranum hér fyrir ofan.

Í gærkvöldi kom hljómsveitin fram á árlegum Kexmastónleikum í sjötta skipti og tryllti lýðinn með jólafönki. 18. desember verða hinsvegar stórtónleikar sveitarinnar í Gamla bíói þar sem stórsveitin mun stíga á svið ásamt Bogomil Font, Valdimar Guðmunds, Bryndísi Jakobs, Júníus Meyvant, Möggu Stínu, Valdimar Guðmunds, Þorleifur Gaukur, Kraftgalli og DJ 78 sem er nýr karakter sem var að fæðast. 

Í samtali við útvarpsmanninn Óla Palla í Popplandi viðurkennir Samúel að dagarnir í kringum jólin séu annasamir og að hann finni stundum fyrir þreytu. „Maður verður að huga að andlegu heilsunni, vera duglegur að fara í sund og horfa á stjörnurnar,“ segir hann kíminn.  

Mynd: RÚV / RÚV

Fyrsta lagið sem sveitin tók er Someday at christmas eftir Stevie Wonder en þar naut sveitin liðsinnis Bryndísar Jakobsdóttur sem söng lagið.

Mynd: RÚV / RÚV

Magga Stína söng jólalag eftir Burt Bacharach sem heitir The bell that couldn't jingle og er í miklu uppáhaldi hjá Samúel. Lagið fjallar um hreindýrabjölluna sem vantar „dingalingið“ í samkvæmt tónlistarmanninum.

Tengdar fréttir

Tónlist

Stúdíó 12 kemur til Baggalúts

Tónlist

„Þetta er lífið sem okkur langar í“