Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Ég gat hreyft mig um svona tvo sentimetra“

16.01.2020 - 16:27
Mynd: Eggert Jónsson / RÚV
„Svo voru þetta drunur í tvær sekúndur og svo bara gler að brotna, svo var ég þakin í snjó,“ segir Alma Sóley Ericsdóttir Wolf, fjórtán ára stúlka sem lenti í snjóflóðinu á Flateyri í fyrrakvöld.

„Þetta var eins og steypa. Ég var eiginlega í móti. Ég gat hreyft mig um svona tvo sentimetra. Ég gat kreppt hnefann og aðeins hreyft hausinn. En ég gat ekki reynt að koma mér upp úr eða ýtt mér í einhverja aðra stellingu,“ segir hún í viðtali við Sigríði Dögg Auðunsdóttur sem hitti Ölmu og móðir hennar, Önnu Sigríði Sigurðardóttur á Ísafirði í dag.

Hafði meiri áhyggjur af fjölskyldu sinni en sér

Alma segir að hún hafi allan tímann haft trú á að henni yrði bjargað. Hún hafði meiri áhyggjur af fjölskyldunni sinni en sjálfri sér. Hún telur sig hafa misst meðvitund og man ekki eftir stundinni þegar björgunarsveitin fann hana. „Ég held ég hafi misst meðvitund en ég held ég hafi verið í fimm eða sex mínútur vakandi. Ég var að hugsa um mömmu og systkini mín, af því ég hélt að þau væru líka í snjóflóðinu. Þannig ég var að vona að það væri í lagi með þau. Ég bjóst alveg við því að það myndi einhver koma.“

Móðir hennar, Anna Sigríður var líka sannfærð að henni yrði bjargað. „Ég hafði í rauninni fáránlega litlar áhyggjur af henni. Ég hélt í einhverja sannfæringu,“ segir Anna. „Ég held að mitt sjokk eigi kannski eftir að koma. Við erum að fara yfir á eftir og sjá húsið og ég er nokkuð viss um að þegar ég sé hvar ég stóð til dæmis og hvar snjórinn liggur í húsinu að þá muni maður fá sjokk yfir því og á sama tíma vera mjög þakklátur fyrir að vera heill á húfi og þetta hafi allt farið eins vel og það gat farið miðað við aðstæður.“

Þær eru þakklátar björgunarsveitum. Alma er spennt að fara aftur til Flateyrar í skólann. „Björgunarsveitin er að grafa allt upp sem er heilt og hægt að ná í. Svo langar mig bara að fara yfir og aftur í skólann og þannig.“