„Ég fékk smá hnút í magann“

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend

„Ég fékk smá hnút í magann“

23.02.2020 - 16:00
„Tilfinningin var bara ótrúleg góð,“ segir Andri Fannar Baldursson í samtali við RÚV en Andri lék sinn fyrsta leik fyrir Bologna í ítölsku A-deildinni í fótbolta í gær. Andri Fannar er aðeins nýorðinn 18 ára gamall en enginn íslenskur leikmaður hefur spilað eins ungur í einni af fimm stærstu deildum Evrópu.

Andri Fannar hefur áður verið í leikmannahópi Bologna gegn Sampdoria fyrr í vetur en kom þá ekki inn á. Hann var hins vegar fyrsti maður af varamannabekknum í gær er liðið gerði 1-1 jafntefli á heimavelli við Udinese.

„Ég var fáránlega spenntur, mér leið mjög vel, ég var ekkert mjög stressaður. Ég var sendur einn að hita upp í byrjun seinni hálfleiks og svo bara fæ ég kallið á 55. mínútu, þá fékk ég smá hnút í magann en svo gekk bara fáránlega vel.“

„Það var ótrúlega mikill hávaði og mikil stemning, mikil gleði og mér fannst ganga mjög vel. Ég fékk fáránlega mikið hrós eftir leikinn frá leikmönnum, þjálfurum og stuðningsmönnum. Þetta er bara búið að vera frábært.“

„Ég fór í mjög mörg viðtöl og tók mikið af myndum með aðdáendum eftir leik. Þetta var bara draumur.“ segir Andri Fannar sem varð 18 ára 10. janúar síðastliðinn. Hann er yngsti íslenski leikmaðurinn sem hefur spilað í einni af fimm stærstu deildum Evrópu en Sigurður Jónsson var um hálfu ári eldri þegar hann lék sinn fyrsta leik með Sheffield Wednesday í ensku úrvalsdeildinni árið 1984.

Mikil virðing borin fyrir Mihajlovic

Þjálfari Bologna er hinn litríki Sinisa Mihajlovic. Sá á mörghundruð leiki að baki sem leikmaður í Seríu A með Lazio og Inter Milan á meðal annarra liða. Hann var þekktur fyrir spyrnutækni sína og stórt skap sem leikmaður. Andri Fannar ber honum vel söguna og segir hann vera harðan í horn að taka.

„Hann er mjög ákveðinn og lét vel heyra í sér. Hann er mjög góður þjálfari, skipar mikið fyrir og er með mjög mikla virðingu í hópnum. Það hlusta allir á hann og það eru allir tilbúnir að gefa allt sem þeir eiga fyrir hann.“

Mihajlovic greindist með hvítblæði síðasta sumar og hefur misst af stórum hluta tímabilsins vegna þess. Hann er hins vegar snúinn aftur af fullum krafti og segir Andri Fannar muna um minna.

„Hann fékk hvítblæði, krabbamein, og er búinn að vera svolítið frá. Hann er búinn að reyna að vera eins mikið til staðar fyrir liðið eins og hann getur; að vera á myndbandsfundum og svoleiðis í gegnum netið. En hann er kominn til baka núna og það gefur liðinu ótrúlega mikið.“

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Andri Fannar kemur inn á fyrir Danann Andreas Skov Olsen.

Ítalskan flókin

Andri Fannar kom til Bologna á láni frá Breiðabliki í janúar í fyrra. Þá keypti liðið hann í sumar. Hann segist enn vera að læra ítölsku og líði vel í borginni.

„Ítalskan er flókin en ég er að læra hana. Ég er byrjaður að skilja mjög mikið og get reddað mér að tala og er að læra hana.“

„Fyrsta hálfa árið bjó pabbi með mér hérna og býr ennþá með mér [sic]. Svo er einn annar Íslendingar í U17 ára liðinu sem gistir með okkur. Svo reynir mamma að vera dugleg að heimsækja mig og kærastan mín.“ en leikmaðurinn sem Andri Fannar nefnir er Ari Sigurpálsson. Sá er ári yngri en Andri og er á láni frá HK.

„Ég æfi alla daga og fæ voða lítið frí. Ég hef verið að æfa mikið með aðalliðinu og varaliðinu og svo er skólinn inn á milli. Þetta er bara harkan.“

Erfitt að halda aftur af tárunum

En hvernig fannst Baldri föður Andra að sjá strákinn spila sinn fyrsta leik í A-deildinni í gær?

„Í byrjun seinni er hann bara sendur einn að hita. Þá hugsar maður bíddu, bíddu, hvað er nú að gerast. Eru menn í alvöru að spá að setja hann inn á, því hann er langyngstur þarna. Svo á 54. mínútu þá bara kalla þeir á hann. Þá koma allar tilfinningarnar og allt ruglið. Ég bara trúði þessu ekki. Hann fer í átt að skýlinu og þá sé ég Sinisa Mihajlovic fara í skýlið. Tveimur mínútum síðar er hann mættur í búningnum út og þá er bara erfitt að halda tárum. Þetta er merkilegur atburður.“ segir Baldur Jónsson, faðir Andra Fannars.

En hver eru markmið Andra Fannars í framhaldinu eftir að hafa spilað sinn fyrsta leik í gær?

„Við verðum að sjá hvað gerist. Ég ætla bara að leggja allt sem ég hef í sölurnar og reyna að standa mig, halda áfram að bæta mig. Ég ætla ekkert kröfu á að ég spili næsta leik, ég virði bara það sem þjálfarinn gerir og er klár ef kallið kemur.“ segir Andri.

Palacio bestur í liðinu

Argentínumaðurinn Rodrigo Palacio skoraði jöfnunarmark Bologna á lokamínútunni í leik liðsins við Udinese í gær en leiknum lauk 1-1. Andri Fannar segir það hafa verið frábært augnablik.

„Það var fáránlega mikilvægt, mjög mikilvægt. Það var geggjuð stemming.“ segir Andri Fannar en aðspurður um hver sé bestur í liðinu stóð hann ekki á svörum:

„Klárlega Rodrigo Palacio. Hann er algjör toppgæi, þvílík gæði í þessum leikmanni. Það eru margir þarna mjög góðir en hann stendur upp úr hjá mér.“

„Hann er með mikla reynslu, er 37-38 ára gamall, búinn að vera í argentínska landsliðinu og Inter. Ég reyni bara að taka það besta frá öllum, hvað þeir gera vel og hvað ég get bætt við minn leik.“ segir Andri Fannar.

epa08237896 Bologna's Rodrigo Palacio jubilates after scoring the goal 1-1 during the Italian Serie A soccer match Bologna Fc vs Udinese at the Renato Dall'Ara stadium in Bologna, Italy, 22 February 2020.  EPA-EFE/GIORGIO BENVENUTI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Andri Fannar fagnar jöfnunarmarki gærdagsins með Palacio.