„Ég er sjálfur þjóðernispungur“

Mynd: Davíð Roach / Davíð Roach

„Ég er sjálfur þjóðernispungur“

20.07.2019 - 14:35

Höfundar

Högni Egilsson tónlistarmaður og söngvari hljómsveitarinnar Hjaltalín siglir sáttur frá vel heppnaðri en erfiðri vinnu við nýja plötu sveitarinnar. Hann er á leið í hringferð um landið með tónleikaröð sína sem hefst á Hótel Holt þar sem gestir mega samkvæmt Högna eiga von á ísbirni syngja aríu.

Hljómsveitin Hjaltalín lagði nýverið lokahönd á plötu sína en áætluð útgáfa hennar er í haust. Högni segir plötuna vera komna í hljóðblöndun og hann sé nú að sigla frá þeim vita og hann sigli sáttur. Hann segir vinnuna við plötuna sem beðið hefur verið með mikilli eftirvæntingu hafa gengið vel en hún var líka erfið á köflum. „Það er mikil dýnamík í tilfinningum og fleira í hópnum sem eykur töfrana en líka sársaukann,“ segir Högni. Nýlega kom út lag frá hljómsveitinni sem kemur til með að birtast á breiðskífunni, en lagið heitir Love from 99 og er óður til fortíðar í hressandi sumarsmelli.

Íslendingar eru þekktir fyrir að vera galnir

Aðdáendur voru ekki lengi að bregðast við nýja laginu en sveitin hefur fengið fjölda skilaboða, bæði frá innlendum en einnig erlendum aðdáendum. „Heimurinn er stærri en við höldum,“ segir Högni sposkur. „Við erum eitt einangraðasta ríki í heiminum og það speglar sig í okkar samfélagi á gríðarlegan hátt, menningarlega og pólitískt. Það er það sem gerir okkar töfra en það gerir okkur líka skrýtin,“ bætir hann við. „Við erum mjög klikkuð í samhengi heimsins og þekkt fyrir að vera frekar galin.“

Hann viðurkennir að þrátt fyrir þetta sé hann líkt og margir Íslendingar stoltur af því að tilheyra landi og þjóð. „Ég er þjóðernispungur ef ég á að segja eins og er. Það sem er gaman er að við erum að skapa okkar eigin list og hún virðist með töfrum fljúga hingað og þangað um heiminn.“

Tónlist er tjáning en ekki neysla

Högni rifjar það upp þegar hann gerði plötuna Arabian horse með hljómsveitinni Gus Gus en sú plata varð gríðarlega vinsæl um allan heim. Fyrir vikið opnaðist nýr markaður fyrir Högna sem vill þó helst ekki nota það orð. „Mér finnst það glatað orð því tónlist er ekki neysla fyrir mér heldur tjáning og saga. Í kjölfarið á plötunni fór ég samt að syngja og spila víðsvegar og kynnast fullt af liði.“ Með Hjaltalín var hann hinsvegar vanari því að spila fyrir færra fólk á minni stöðum. „Og við höfum ekki gefið neitt út í sjö ár en samt er maður enn að fá skilaboð frá fólki sem segist elska síðustu plötuna okkar. Þá hugsar maður vá, tónlist okkar lifir og það gerir fjölskyldubönd okkar sem hljómsveit enn sterkari.“

Eins og unglingar að mæla ágæti sitt í „lækum“

Þó Högni segist temja sér æðruleysi gagnvart viðtökum við tónlist sinni þá segir hann að því fylgi óhjákvæmlega pressa að vera í hljómsveit. „Maður kemst ekki hjá því að velta því fyrir sér hvernig fólki muni líka við plötuna. Við erum búin að vera inni í helli og það er hálfgerð galdrastofa en svo kemur maður út úr hellinum og spyr sjálfan sig hvort fólki líki þetta, hvort einhver sé að hlusta,“ útskýrir hann. Hann líkir tilfinningunni við sjálfsmyndarglímu unglinga sem þeir mæla í lækum á samfélagsmiðlum. Högni skellihlær: „Ég útskýrði samt fyrir vini mínum í samtali oikkar um daginn að þetta er flöskuskeyti og það er farið af stað. Þetta er búið að eiga sér líf og það sem gerist bara gerist.“

Högni og félagar hans í Hjaltalín þurfa þó ekki að hafa miklar áhyggjur því þau tvö lög sem hafa komið út af nýju plötunni, Love from 99 og Baronesse hafa bæði orðið gífurlega vinsæl og fengið mikla hlustun. „Ég verð samt helst glaður þegar ég hitti fólk úti á götu sem segir mér í óspurðum fréttum að þau fíli lögin,“ segir hann. 

Fiskur í vatni sem veit ekki að hann er í vatni

En hvernig ætli honum hafi dottið í hug að fara í hringferð um landið? „Ég var einfaldlega staddur á Ítalíu um daginn og ég ákvað bara að gera eitthvað skemmtilegt. Ég skipulagði ellefu tónleika á stöðum sem ég hef aldrei áður heimsótt,“ segir hann spenntur sem slær ekki slöku við. „Ég er nefnilega að vinna í nýrri sólóplötu samhliða Hjaltalín því ég er með áráttu fyrir tónlist. Ég er eins og fiskur í vatni sem veit ekki að hann sé í vanti.“ Hann segir þessa áráttu hafa borið góðan ávöxt í gegnum tíðina en hún geti líka verið íþyngjandi. „Ég sakna þess sem krakki að sjá drauma og liti þegar ég heyri tónlist. Þetta sakleysi sem maður mætir í tónlistinni, engin greining. Þetta er minning sem ég á um vináttu og skógarferð, það er hin sanna túlkun á tónlist.“

Hverju eiga tónleikagestir vítt og breitt um landið von á frá Högna á næstunni? „Ég ætla að kynda í ofninum,“ svarar hann að bragði en hann hyggst leika lög af Hjaltalínplötum, Gus gus lög en einnig eigið efni. „Ég er að leika mér með hljóð og hljóðvinnslu svo þú getur hugsað þér jökul sem er að bráðna og breytast í vatn og svo kemur ísbjörn og syngur fyrir þig aríu að ítölskum stíl.“

Tónleikarnir á Holtinu hefjast klukkan 20 í kvöld og eru allir velkomir. Forvitnilegt verður að sjá hvort söngelski ísbjörninn láti sjá sig á barnum. 

Andri Freyr Viðarsson ræddi við Högna í Síðdegisútvarpinu en innslagið má hlýða á í spilaranum efst í umfjölluninni. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Hjaltalín með glaðlega fortíðarþrá

Tónlist

Barónessa með Hjaltalín í Vikunni

Popptónlist

Hjaltalín og Aron Can byrja árið með látum