Reggísveitin Hjálmar gaf fyrir skemmstu út nýja plötu, Allt er eitt og ákvað af því tilefni að rúlla af stað í sína fyrstu hringferð um landið. Hjálmar fagna með þessu 15 ára starfsafmæli sínu og munu þeir koma fram á 15 tónleikum víðs vegar um landið.
Hringferðin hófst í lok maímánaðar og verða þeir á ferðinni allan júnímánuð. Vestmannaeyjar voru þeirra fyrsti viðkomustaður og því næst var það hið fornfræga félagsheimili Hlégarður í Mosfellsbæ. Þar buðu þeir herramenn tónlistarkonunni Guðrúnu Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttur eða GDRN í kaffisopa en Guðrún ólst upp í Mosfellsbæ og segist koma „heim“ af og til. Eftir kaffið plötuðu Hjálmar Guðrúnu til að taka með sér eitt lag úr hennar smiðju og fyrir valinu var lagið Af og til sem er á væntanlegri plötu tónlistarkonunnar.