Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ég er hérna svona af og til“

Mynd með færslu
 Mynd: Hjálmar - RÚV

„Ég er hérna svona af og til“

12.06.2019 - 14:35

Höfundar

Hljómsveitin Hjálmar er á sinni fyrstu hringferð um landið þessa dagana og á ferð sinni hittu þeir fyrir tónlistarkonuna GDRN á heimavelli hennar í Mosfellsbæ. Þar drukku þau kaffi og tóku lagið saman.

Reggísveitin Hjálmar gaf fyrir skemmstu út nýja plötu, Allt er eitt og ákvað af því tilefni að rúlla af stað í sína fyrstu hringferð um landið. Hjálmar fagna með þessu 15 ára starfsafmæli sínu og munu þeir koma fram á 15 tónleikum víðs vegar um landið. 

Hringferðin hófst í lok maímánaðar og verða þeir á ferðinni allan júnímánuð. Vestmannaeyjar voru þeirra fyrsti viðkomustaður og því næst var það hið fornfræga félagsheimili Hlégarður í Mosfellsbæ. Þar buðu þeir herramenn tónlistarkonunni Guðrúnu Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttur eða GDRN í kaffisopa en Guðrún ólst upp í Mosfellsbæ og segist koma „heim“ af og til. Eftir kaffið plötuðu Hjálmar Guðrúnu til að taka með sér eitt lag úr hennar smiðju og fyrir valinu var lagið Af og til sem er á væntanlegri plötu tónlistarkonunnar.

GDRN og Hjálmar tóku lagið Af og til og má hér sjá myndbandsupptöku í 360°.

Rætur Guðrúnar eru í Mosfellsbæ og kann hún því vel við sig í Hlégarði, hún býr þó í öðru sveitarfélagi í dag. „Ég er úr Mosfellsbænum, ég er hér svona af og til. Er þó smá í Kópavoginum og svo kem ég stundum heim í Mosó,“ segir Guðrún. Hún vinnur nú að nýrri plötu með þeim Magnúsi Jóhanni Ragnarssyni og Arnari Inga Ingasyni sem kallar sig Young Nasareth.

„Mig langar að koma henni út áður en ég kem fram á Þjóðhátíð í sumar. Þetta er ekki hipphopp, þetta er smá R&B en þá svona af gamla skólanum. Smá af djassi, svolítið fönk í bland við svona popptakta þannig að þetta verður svona í átt að gamalli R&B tónlist frekar heldur en gamla platan mín sem var meira popp og nútímalegt R&B,“ segir Guðrún Ýr.

Mynd með færslu
 Mynd: Hjálmar - RÚV
GDRN og Hjálmar í Hlégarði Mosfellsbæ.

Næstu tónleikar Hjálma á hringferðinni verða haldnir í Skyrgerðinni í Hveragerði á fimmtudaginn. Frekari upplýsingar um hringferð Hjálma má nálgast á Facebook-síðu hljómsveitarinnar.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Reggí gott af Reykjanesi

Tónlist

Nýtt vín á gömlum belg frá Júníusi Meyvant

Popptónlist

Hjálmar - Allt er eitt

Tónlist

Við höfum aldrei farið hringinn áður