Ég er ekki Hermione Granger

Mynd með færslu
 Mynd: British Vogue - YouTube

Ég er ekki Hermione Granger

07.11.2019 - 14:27
Emma Watson segist vilja að fólk viti að hún sé ekki Hermione Granger. Það sé erfitt að fólk sjái hana ekki enn sem bara Emmu Watson, þrátt fyrir að síðasta Harry Potter myndin hafi komið út fyrir átta árum siðan.

Þetta segir Watson í ítarlegu viðtali við Vogue í tilefni útkomu kvikmyndarinnar Little Women sem hún leikur í og væntanleg er á hvíta tjaldið í desember. Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir neðan. 

Watson var aðeins níu ára þegar hún var valin úr röð stúlkna í leikfimisalnum í skólanum sínum til að fara í prufur fyrir væntanlega kvikmynd um galdrastrákinn Harry Potter. Þetta var fyrsta prufan sem hún fór í og eins og frægt er orðið fékk hún hlutverkið. Hún segir að þrátt fyrir að lífið hefði líklegast ekki verið eins ef hún hefði ekki fengið þetta tækifæri þá hefði hún alltaf endað á því að gera þetta á einhvern eða annan hátt. „Það er enginn vafi á að þetta [leiklist] hefði verið hluti af lífi mínu.“

Mynd með færslu
 Mynd: WarnerBros - Pinterest
Þríeykið ódauðlega, Hermione Granger, Harry Potter og Ron Weasley.

Nú eru tuttugu ár síðan og Watson verður þrítug á næsta ári. Hún hefur ekki setið með hendur í skauti síðan Hogwarts-göngunni lauk, fór í háskóla, hefur verið virkur talsmaður kvenréttinda og lék Fríðu í endurgerð Disney á Fríðu og Dýrinu svo eitthvað sé nefnt.

Hún fer um víðan völl í viðtalinu og ræðir allt frá samfélagsmiðlum til heimssögunnar. Aðspurð um hlutverk sitt sem aðgerðasinna segist Watson alltaf hafa verið svona. Hún hefur verið ötull talsmaður femínisma og vann meðal annars með Sameinuðu þjóðunum að átakinu HeForShe sem hófst í september 2014.  

„Án þessa hluta af mér er allt annað sem ég geri merkingarlaust. Mér líður illa að vera að taka pláss án þess að tala um þessa hluti sem skipta máli.“

Watson leikur Meg, eina af March-systrunum, í væntanlegri kvikmynd Gretu Gerwig, Little Women, sem byggð er á skáldsögunni víðfrægu eftir Louisu May Alcott. Ásamt Watson skartar myndin leikkonum á borð við Saoirse Ronan, Lauru Dern og Meryl Streep.  

Hún segir gerð myndarinnar hafi opnað huga sinn enn frekar og gert það augljóst fyrir sér að það sé ekki ein leið til að vera femínisti. Leið Meg til að vera femínisti sé til dæmis að taka sjálf þá ákvörðun að vera heimavinnandi móðir og eiginkona. „Þó svo að draumar hennar séu aðrir en systur hennar þá þýðir það ekki að þeir séu ekki mikilvægir.“

Að lokum kemur Watson inn á það að hún sé að verða þrítug. „Einu sinni hugsaði ég af hverju allir gerðu svona mikið mál úr því að verða þrítugir. Svo varð ég tuttugu og níu ára og guð minn góður, ég er svo stressuð og kvíðin.“ Þetta rekur hún til pressunnar sem samfélagið setur á konur á þessum aldri um að vera búnar að koma sér upp heimili, eiga eiginmann og helst barn. Þá hafi hún aldrei trúað því að hún gæti verið hamingjusöm einhleyp en hún sé það nú samt, þótt hún lifi engu skírlífi.