Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ég elska frönsk vín“

24.08.2019 - 20:00
Erlent · G7
Mynd: EPA-EFE / AFP POOL
Hart verður lagt að forseta Bandaríkjanna að draga úr tollastríði við Kínverja á fundi sjö stærstu iðnríkja heims um helgina. Frakklandsforseti ræðir sömuleiðis við hann fyrirhugaða tolla á frönsk vín. Fundur G7 ríkjanna hófst í Frakklandi í dag.

Gríðarleg öryggisgæsla er í franska strandbænum Biarritz þar sem fundur 7 stærstu iðnríkja heims hófst í dag. Yfir 13 þúsund lögreglumenn eiga að gæta öryggis fyrirmennanna sjö sem flugu, hvert í sínu lagi, til Suðvestur-Frakklands í dag. 

Reglulegar mannabreytingar verða á hópnum, sem Rússar tilheyrðu áður þeir innlimuðu Krímskaga árið 2014. Boris Johnson mætir nú á sinn fyrsta fund eftir að hann varð forsætisráðherra Bretlands. Fundurinn gæti verið sá síðasti fyrir Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, sem sagði af sér á dögunum. 

Það er eitt og annað á dagskrá leiðtoganna. Jafnréttismál, loftslagsvá og Brexit er meðal þess. Og svo eru það tollamálin. 

„Ég elska frönsk vín,“ sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna á fundi með Emmanuel Macron, forseta Frakklands í dag. 

Trump er yfirlýstur bindindismaður en líklega nefndi frönsk vín sérstaklega vegna áforma sinna um að hækka verulega innflutningstolla á þau. Það ræða þeir Emmanuel Macron Frakklandsforseti um helgina. 

Fleiri tollar verða til umræðu og líklegt að hart verði lagt að Trump að draga úr tollastríði við Kínverja. 

Þá eru skógareldarnir í Amazon sömuleiðis til umræðu, en þeir eru mótmælendum á fundinum einnig hugleiknir.