Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Ég bara hlakka til samstarfs við Guðna“

26.06.2016 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Mér líst bara mjög vel á það og vil nota þetta tækifæri til að óska Guðna og hans fjölskyldu til hamingju með kjörið í gær sem og þjóðinni með nýjan forseta,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra um kjör Guðna Th. Jóhannessonar í gær.

Aðspurður hvort hann telji að Guðni verði farsæll forseti, segir Sigurður Ingi: „Það á auðvitað eftir að koma í ljós en ég held að það séu sterkar vísbendingar til þess. Það er auðvitað gott að þetta var nokkuð afgerandi. Það geta allir gengið nokkuð sáttir frá þessu borði.“

Forsætisráðherra og forseti Íslands eiga töluverð samskipti og samstarf.  
„Ég bara hlakka til samstarfs við Guðna og það er rétt að forsætisráðherra og forseti Íslands eiga þónokkur samskipti og ég hef átt ágæt samskipti við Ólaf Ragnar og ég vænti þess sama af Guðna.“

En skiptir það máli að það sé gott samband milli forseta og forsætisráðherra?
„Já ég held það að það skipti máli að menn geti skipst á skoðunum og jafnvel borið ákveðna hluti undir hvorn annan án þess að menn séu endilega beint að leita sér ráða. “

 

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV