Eftirtektarverðustu klæði Emmy-verðlaunanna

epa07862663 Gwendoline Christie arrives for the 71st annual Primetime Emmy Awards ceremony held at the Microsoft Theater in Los Angeles, California, USA, 22 September 2019. The Primetime Emmys celebrate excellence in national primetime television broadcasting.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Eftirtektarverðustu klæði Emmy-verðlaunanna

23.09.2019 - 14:06
Emmy-verðlaunin voru haldin með pompi og prakt í Los Angeles í gær. Mikið var um dýrðir og stjörnurnar settu svip sinn á fjólubláa dregilinn með misfallegum og misvelheppnuðum kjólum, jökkum og skikkjum.

Tískuspekingar heimsins eru að venju ekki alveg sammála um hvaða fólk var í flottustu fötunum en Spiderman-leikkonan Zendaya og Sophie Turner, sem leikur Sönsu Stark í Game of Thrones, þóttu að mati margra standa upp úr. Þá þótti breska leikkonan Jameela Jamil, sem fer með hlutverk í gamanþáttunum The Good Place, sömuleiðis vera í einstaklega vel heppnuðum kjól. 

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Sophie Turner, Zendaya og Jameela Jamil.

Þá þótti hin unga Joey King, sem tilnefnd var fyrir hlutverk sitt í The Act, hafa tekið réttar ákvarðanir þegar kom að klæðnaði kvöldsins og það sama átti við um Rachel Brosnahan, aðalleikkonu The Marvelous Mrs. Maisel, en hún var í dökkbláum palíettukjól. Game of Thrones stjarnan Maisie Williams vakti líka athygli fyrir sitt klæðaval en kærasti hennar, Reuben Selby, kom að hönnun kjólsins. 

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Joey King, Rachel Brosnahan og Maisie Williams.

Aðrir fóru ótroðnar slóðir í klæðavali en Gwendoline Christie, sem er hvað þekktust fyrir að leika Brienne of Tarth í Game of Thrones, kom í kjól sem auðvelt var að ímynda sér að kæmi beint úr fataskáp Jesú Krists. Netverjar virtust sammála um þá samlíkingu enda margir þeirrar skoðunar að Brienne of Tarth ætti að vera í guðatölu. 

Það þykir mörgum hreinasta svívirðing að blanda saman rauðum og bleikum. Litirnir áttu hins vegar óvænta endurkomu á fjólubláa dreglinum þar sem hvorki meira né minna en fjórar leikkonur klæddust kjólum í þeirri litasamsetningu. Spurning hvað tískusérfræðingar segja við þessu. 

Hinir fimm fræknu, þáttarstjórnendur í raunveruleikaþáttunum Queer Eye, þykja sjaldnast stíga feilspor þegar kemur að klæðnaði en Karamo Brown, menningarsérfræðingur (e. culture expert) þáttanna, stóð að mati margra ekki undir væntingum þetta kvöldið. Hann klæddist áhugaverðri blöndu af skyrtu og skikkju frá Versace sem virtist fara fyrir brjóstið á einhverjum. 

epa07863190 (L-R) Bobby Berk, Tan France, Antoni Porowski and Karamo Brown arrives for the 71st annual Primetime Emmy Awards ceremony held at the Microsoft Theater in Los Angeles, California, USA, 22 September 2019. The Primetime Emmys celebrate excellence in national primetime television broadcasting.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bobby Berk, Tan France, Antoni Porowski og Karamo Brown.

Þá þótti fyrirsætunni og raunveruleikastjörnunni Kendall Jenner ekki takast að slá í gegn með áhugaverðri samsetningu sinni af latexrúllukragapeysu og blómamunstruðum kjól. Jenner og systir hennar Kim veittu verðlaun fyrir besta raunveruleikaþáttinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: E! - YouTube
Kendall Jenner og Kim Kardashian.

Netverji einn gekk svo langt að líkja klæðnaði Jenner við augnablikið þegar þú þarft að fela kynlífstækin þín í sófanum því mamma þín er óvænt mætt í heimsókn. Dæmi hver fyrir sig. 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Krúnuleikar, Tsjernóbíl og Flóabæli sigursæl