Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Eftirlitsnefnd upplýst um atvik í fangelsinu á Akureyri

03.03.2020 - 16:05
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Nefnd um eftirlit með lögreglu hefur verið gert viðvart um atvik sem átti sér stað í fangelsinu á Akureyri á laugardag þegar maður sem var í haldi var fluttur á gjörgæslu. Þetta staðfestir Bergur Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra

Liggur enn á gjörgæslu

Forsaga málsins er sú að maðurinn, sem er grunaður um að hafa stungið annan mann á Kópaskeri aðfaranótt laugardags, var fluttur á sjúkrahúsið á Akureyri skömmu eftir handtöku. 

Bergur Jónsson sem leiðir rannsókn málsins segist í skriflegu svari til fréttastofu ekki vita hvað varð til þess að maðurinn var fluttur á gjörgæslu. „Tel að læknavísindin geti svarað því betur. Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu hefur þó verið gert viðvart um atvikið eins og reglur kveða á um“ segir Bergur.

Fórnarlambið á batavegi

Fórnarlamb árásarinnar er einnig á gjörgæslu en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er hann á batavegi. Til stendur að færa hann á almenna deild í dag. 

Ekki hefur enn reynst mögulegt að ræða við mennina tvo, vegna ástands þeirra en rannsókn er engu að síður í fullum gangi. Sýni af vettvangi og fatnaður mannana hefur verið sendur tæknideild til frekari rannsóknar.