
Með samningnum lækka tollar á meirihluta þeirra vara sem fluttar eru út frá Íslandi, að því er segir á vef utanríkisráðuneytisins. Nær allar sjávarafurðir sem Ísland flytur út njóta fulls tollfrelsis, sumar frá gildistöku samningsins en aðrar að loknum mislöngum aðlögunartíma.
Utanríkisráðherra telur samninginn góðan
„Við höfum lagt mikla áherslu á að ljúka samningaviðræðum við Mercosur-ríkin og það er ánægjulegt að sá samningur sé nú í höfn,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra á vef ráðuneytisins. „Markaðsaðgangur fyrir sjávarafurðir er sérstaklega mikilvægur fyrir okkur og hann eykst umtalsvert með þessum samningi. Ég tel að við getum verið mjög sátt við þennan samning, sérstaklega þar sem hann er ekki síðri en sá sem Mercosur hefur nýlega samið um við Evrópusambandið."
Viðskipti milli Íslands og Mercosur-ríkja eru talsverð og nemur útflutningur til ríkjanna um milljarði á ári. Innflutningur til Íslands frá löndunum nemur ríflega 23 milljörðum á ári. Þar vegur áloxíð langþyngst, það er þegar tollfrjálst.
Leggjast gegn samningi vegna elda í Amazon
Samningur Mercosur og ESB hefur ekki verið fullgiltur. Hann var undirritaður fyrir tveimur mánuðum. Forsætisráðherra Írlands, Leo Varadkar, og forseti Frakklands, Emmanuel Macron, hafa lýst því yfir að þeir leggist gegn samningnum uppfylli brasilísk stjórnvöld ekki skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Miklar eldar loga í Amazon regnskóginum og hefur Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, sætt mikilli gagnrýni fyrir að hafa ekki lagt áherslu á verndun hans. Eldarnir í ár eru þeir mestu síðan mælingar hófust árið 2013.
Donald Tusk, forseti ráðherraráðs ESB, sagði í dag að það væri erfitt að ímynda sér að aðildarríki ESB fullgildi samninginn á meðan stjórnvöld í Brasilíu geri ekki allt sem í þeirra valdi standi til að halda eldunum í skefjum.
Leiðtogi stjórnarandstöðuflokks í Noregi gagnrýninn
Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein eiga aðild að EFTA. Efnahagsráðherra Noregs, Torbjorn Roe Isaksen, segir að sjálfbær þróun Amazon, sem Noregur leggi mikla áherslu á, sé fyrirferðamikil í samningi EFTA-ríkjanna, að því er AFP fréttastofan greinir frá. Leiðtogi Sósíalíska vinstri flokksins í Noregi, Audun Lysbakken, gagnrýnir undirritun samnings EFTA við Mercosur-ríkin og segir fráleitt að gagnrýna brasilísk stjórnvöld fyrir eyðingu skóga einn daginn og þann næsta gera fríverslunarsamning við ríkið.