Það er margt mjög vel gert í Héraði, kvikmyndatónlistin eftir Valgeir Sigurðsson passar til að mynda mjög vel við myndefnið og var notuð hugvitsamlega, magnaði upp stemmninguna án þess að vera yfirgnæfandi. Aðdáun Ingu á hinni ástsælu hljómsveit Stjórninni sem var upp á sitt besta á tíunda áratugnum, kannski eins og Inga sjálf, kemur einnig fram og vakti upp hughrif melankólíu og nostalgíu hjá mér. Héraðið er líka kvikmynd sem er til þess fallin að vekja áhorfendur til umhugsunar um íslenskt samfélag, karllæga stjórnunarhætti og pólitík sem og hin ævafornu og lúnu átök milli höfuðborgarinnar og dreifbýlisins. Ég er forvitin um hverjar viðtökurnar við Héraði verða í Skagafirði.
Það er einnig óhjákvæmilegt að setja Héraðið í samhengi við kvikmynd Benedikts Erlingssonar Kona fer í stríð sem fjallar um Höllu sem einnig rís upp gegn karllægu veldi virkjana og umhverfisspjalla í nafni framfara og efnahags. Báðir hafa Grímur og Benedikt gert meinfyndnar kvikmyndir um samspil manna, dýra og karlmennsku og í sínum nýjustu myndum eru kvenaðalpersónur í öndvegi sem óhræddar takast á við yfirvaldið og gerast sekar um borgaralega óhlýðni.
Mæðulegar konur taka til hendinni
Á þessu ári kom út fræðibók eftir mannfræðinginn Kristínu Loftsdóttur sem ber titilinn „Crisis and Coloniality at Europe’s Margins: Creating Exotic Iceland“ þar sem hún fjallar um sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar allt frá lokum 19. aldar til samtímans, sem setur aðdraganda og eftirstöðvar efnahagshrunsins árið 2008 í sögulegt samhengi – það gefst ekki tími hér til þess að fjalla ítarlega um efnistök þessarar áhugaverðu bókar. En í bókinni fjallar Kristín um það hvernig ímynd og líkami konunnar hefur verið notaður í ímyndarsköpun þjóðernishyggjunnar, samanber fjallkonan, allt frá tímum sjálfstæðisbaráttunnar fram til nútímans, en eftir hrunið bar á orðræðu í kringum sterku, sjálfstæðu, íslensku konurnar, innanlands sem utan, sem þurftu að stíga fram og taka til eftir vitlausu strákana. Ég er ekki frá því að bæði Kona fer í stríð og Héraðið endurspegli þessa fantasíu og jafnvel ákveðna staðalímynd íslensku konunnar. Þetta þarf ekki endilega að vera neikvætt en mér finnst áhugavert að skoða þetta sem eins konar trend í kvikmyndagerð samtímans hjá þessum leikstjórum sem eru augljóslega sjálfsmeðvitaðir femínistar, sem er vitaskuld bara jákvætt.
Halla í Kona fer í stríð er mun ýktari og úthverfari karakter en Inga, hún hefur líka meiri völd yfir eigin lífi og örlögum heldur en Inga sem virðist lifa lífi sem hún kaus sér endilega ekki sjálf. Inga er holdgervingur passívs æðruleysis þar til hún stendur eftir ein líkt og Davíð á móti Golíat í baráttu sinni við kaupfélagið. Breyttist raunverulega eitthvað hér á landi þó svo að mæðulegar konur tækju til hendinni við þrif eftir subbuskap í partíi útrásarvíkinga sem þeir fengu leyfi til að halda hjá pabba sínum, Sjálfstæðis- og Framsóknarmanninum sem var með í partíinu? Svarið við þeirri spurningu er margrætt og endirinn á Héraðið ýjar að því að það sé ekki endilega svo einfalt að koma á breytingum, en þó að margt sé rotið í samfélaginu þá er líka von. Sigga Beinteins segir okkur það beint út. Því alveg eins og fæðing og dauði eru órjúfanlegur hluti af lífinu þá eru breytingar það líka, og þær koma hvort sem Inga heldur búskap áfram eða ekki. Eitt er víst að samfélög, sem og kvikmyndalistin, þróast ekki áfram ef fólk er ekki tilbúið að stíga út fyrir þægindarammann.