Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Efnahags- og loftlagsmálin stóru málin 2020

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Efnahags- og loftlagsmál og kjarasamningar opinberra starfsmanna verða helstu viðfangsefni ríkisstjórnarinnar á næsta ári. Fjármálaráðherra segir nýafstaðið haustþing eitt það afkastamesta sem um getur.

Venju samkvæmt var boðað til ríkisráðsfundar á Bessastöðum að morgni gamlársdags. Forystumenn ríkisstjórnarinnar eru almennt ánægðir með afraksturinn á árinu sem er að líða og horfa á árið 2020 björtum augum. ))

„Ég held að lífskjarasamningarnir séu mér ofarlega í huga. Það var auðvitað mikil vinna á bak við þá, bæði af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda og líka af hálfu stjórnvalda. Núna á haustþinginu höfum við séð mörg framfaramál verða að veruleika í kjölfar þessara breytinga. Ég hlýt að nefna breytingar á skattkerfinu, lengingu fæðingarorlofs og fleiri þjóðþrifamál til að mynda í húsnæðismálum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir einnig að kjarasamningarnir hafi verið stóra málið. „Lífskjarasamningarnir eru auðvitað stærsta einstaka málið sem leystist úr á þessu ári og í kjölfarið koma skattalækkanir. Þetta var afkastamikið ár fyrir ríkisstjórnina, eitthvert afkastamesta haustþing sem um getur.“

Bjartsýn á árið 2020

Forsætisráðherra segir að loftslagsmálin verði stærsta einstaka viðfangsefnið árið 2020 en báðir eru ráðherrarnir sammála um að efnahagsmálin verði krefjandi.  „Það skiptir máli núna hvernig við höldum áfram. Það þarf að styrkja opinbera fjárfestingu, það þarf að ná samningum við opinbera starfsmenn. En ég er hins vegar mjög bjartsýn á, miðað við hvernig mál gengu á árinu 2019 sem margir töldu nú að yrði erfitt, þá er ég mjög bjartsýn á að við náum að sigla því mjög farsællega í höfn,“ segir Katrín.

Bjarni hefur áhyggjur af vaxandi atvinnuleysi. „Það er áhyggjuefni að atvinnulífið er að fjárfesta minna þannig að við þurfum að passa upp á það að hér fari ekki að grafa um sig viðvarandi atvinnuleysi heldur að við náum að snúa vélarnar aftur í gang og koma hagvexti aftur af stað. Heilt yfir eru spár ágætlega bjartsýnar fyrir næsta ár. Við þurfum hins vegar að halda áfram að taka góðar ákvarðanir. Það er auðvitað stóra málið.“

Magnús Geir Eyjólfsson