Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Efling veitir undanþágu frá verkfalli vegna COVID-19

29.02.2020 - 17:19
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Efling hefur fallist á undanþágubeiðni Reykjavíkurborgar frá verkfalli vegna sorphirðu. Þetta staðfestir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. Fallist var á beiðnina eftir að fyrsta COVID-19 smitið greindist hér á landi og viðbúnaðarstig var fært upp á hættustig. Neyðarstjórn velferðarsviðs borgarinnar situr á fundi núna en vegna verkfallsins hefur ekki verið þrifið á heimilum aldraðra og fatlaðra og þá hefur heldur ekki fengist undanþága fyrir böðun.

Eftir að viðbúnaðarstigið var hækkað úr óvissustigi í hættustig er hreinlæti nú orðið mikilvægara en áður - það er talið einn mikilvægasti þátturinn í að hindra útbreiðslu veirunnar. 

Í tilkynningu frá samhæfingarmiðstöð almannavarna nú síðdegis lýstu almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnarlæknir yfir áhyggjum vegna yfirstandandi og yfirvofandi verkföllum. „Þetta eru aðgerðir sem geta haft áhrif á viðkvæmustu hópa samfélagsins eins og fólk á hjúkrunarheimilum. Þá getur takmörkuð sorphirða jafnframt dregið úr áhrifamætti sóttvarnaaðgerða.“

Vegna verkfalls Eflingar hefur sorphirða í borgarlandinu legið niðri en nú hefur fengist undanþága frá því. „Eftir að erindi borgarinnar barst bárust þær fréttir að veiran hefði borist til landsins. Við sendum erindi til almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra þar sem við óskuðum eftir þeirra álit. Það barst síðdegis í dag og þar var talið að við ættum að veita þessa undanþágu. Strax í framhaldinu var leitast eftir að fá samþykki frá undanþágunefndinni og það var fallist á þetta einróma,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.

Hann segir að það kæmi honum ekki á óvart ef það bærust fleiri undanþágubeiðnir varðandi hreinlæti, ekki síst varðandi þrif hjá skólastofnunum og hjá velferðarsviði. „Við erum í stakk búinn að meðhöndla frekari undanþágubeiðnir hratt og vel. Það er líka gott að geta átt beina línu til almannavarnardeildarinnar sem hafa geta gefið okkur ráðleggingar.“

Neyðarstjórn velferðarsviðs borgarinnar situr nú á fundi vegna COVID-19 veirunnar þar sem staða mála er rædd.

Fréttin hefur verið uppfærð

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV