Efling frestar verkfalli vegna COVID-19

24.03.2020 - 09:25
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Samninganefnd Eflingar gagnvart Sambandi íslenskra sveitarfélaga (SÍS) hefur frestað verkfallsaðgerðum frá og með miðnætti. Aðgerðirnar taka til allra félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Hveragerðisbæ og Sveitarfélaginu Ölfusi. 

Í yfirlýsingu sem samninganefndin sendi frá sér segir að skynsamlegast sé að fresta verkfallsagerðum þangað til COVID-19 faraldurinn er liðinn hjá. Hins vega geti samninganefnd Eflingar aldrei tekið annað í mál en að félagar hjá Kópavogi, Seltjarnarnesbæ og víðar fái kjarabætur sambærilegar þeim sem var í kjarasamningu Eflingar við ríkið og Reykjavíkurborg. Efling sé því tilbúin að hefja verkfallsaðgerðir á nýjan leik þegar faraldurinn hefur gengið yfir. 
 
„Félagsmenn okkar vinna flestir hverjir við grunnþjónustu og við umönnun og þeir skilja mjög vel hvað veirufaldurinn þýðir fyrir samfélagið. Þeir hafa sýnt mikla ábyrgð vegna faraldursins, til dæmis með því að veita rúmar verkfallsundanþágur,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, í tilkynningu sem send var fjölmiðlum í gær. 

Efling óskaði í gærmorgun eftir fundi hjá sáttasemjara og sagði Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, við fréttastofu að samninganefndin hefði í hyggju að reyna að þoka viðræðunum áfram. Lögð yrði fram ný tillaga að samningi við sveitarfélögin. Ríkissáttasemjari hafði boðað fundinn klukkan tíu í dag. 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi