Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Efling ekki bundin af Lífskjarasamningnum

29.01.2020 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Efling er ekki bundin af Lífskjarasamningnum í þeim viðræðum sem nú standa yfir við borgina, segir Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar. Launaleiðrétting sem farið er fram á sé í samræmi við yfirborganir og bónusa á almennum markaði.

„Í þessu tilviki erum við að semja við Reykjavíkurborg, sem er sjálfstæður kjarasamningur og ekki á nokkurn hátt bundinn af samningi við Samtök atvinnulífsins, nema borgin og SA hafi gert með sér samkomulag um slíkt,“ segir Viðar.

Í tilboði sem Efling hafi gert borginni sé unnið út frá sömu viðmiðum og í Lífskjarasamningnum sem séu að hækka lægstu laun meira en önnur innan þess svigrúms sem Efling telur að borgin hafi til launahækkana. Halldór Benjamín Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í grein í Fréttablaðinu í dag að kröfur Eflingar væru atlaga að Lífskjarasamningnum og ættu eftir að sprengja hann í loft upp. Viðar vísar því á bug.

„Það er hvergi í Lífskjarasamningnum svokallaða samið um forsendur fyrir öðrum samningum, það er bara alrangt, og ef einhver aðili heldur því fram þá vil ég að sá aðili bendi á hvar það standi í svokölluðum lífskjarasamningi,“ segir Viðar.

Taxtahækkanir sem samið var um fyrir hönd félagsmanna Eflingar við Samtök atvinnulífsins í fyrra og mynduðu Lífskjarasamningana séu í raun grunnur að launum sem síðan sé algengt á almennum vinnumarkaði að greitt sé umfram. 

„Við horfum á útkomuna hjá því starfsfólki sem á í hlut og þá skiptir miklu máli að á hinum almenna markaði eru taxtahækkanir gólfið sem hægt er að byggja á frekar og er að jafnaði gert á fjölmörgum vinnustöðum með ýmsum leiðum. Það eru markaðslaun, og einhverjar yfirborganir sem tíðkast kannski ekkert mjög háar en allt er til í því,“ segir hann. 

Viðar segist ekki hafa áhyggjur af viðbrögðum þeirra félagsmanna Eflingar sem starfa á almennum markaði leiði samningar við borgina til betri kjara en í lífskjarsamningnum. „Þær kjaraleiðréttingar sem við höfum farið fram á við borgina mælast í upphæðum sem við þekkjum í yfirborgunum og bónusum og þess háttar á hinum almenna vinnumarkaði,“ segir hann. Að auki hafi hópurinn sem verið sé að semja fyrir nú, sem starfar hjá borginni, ekki í aðstöðu til þess að hækka laun sín með yfirvinnu og vaktavinnu líkt og hópar á almennum vinnumarkaði.

„Við skiljum Lífskjarasamninginn sem samning við Samtök atvinnulífsins á almennum markaði sem hafi tekið mið af þeim aðstæðum sem voru á þeim tíma. Hann er kjarasamningur sem gildir eingöngu fyrir þá sem heyra undir þann samning,“ segir hann.