Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Efling boðar fleiri ótímabundin verkföll

Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Fleiri verkföll en hjá Reykjavíkurborg eru í bígerð hjá Eflingu. Greidd verða atkvæði um ótímabundin verkföll í fimm sveitarfélögum og samúðarverkföll í einkareknum leik- og grunnskólum. Þau hefjast í 9. mars verði þau samþykkt

Svipuð afstaða hjá sveitarfélögum og borginni

Samninganefndir Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga hittust á samningafundi hjá ríkissáttasemjara í dag. Sá fundur var árangurslaus að mati Eflingar.  

„Það er töluverð brekka og hjalli að fá fram viðurkenningu á því að það þurfi að leiðrétta kjör þessara stétta, já, og það virðist eiga við um Samband íslenskra sveitarfélaga alveg eins og Reykjavíkurborg,“ segir Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar. 

Atkvæðagreiðsla um ótímabundið verkfall frá 9. mars hefst á þriðjudag og lýkur annan laugardag. Atkvæðagreiðslan nær til 270 starfsmanna hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Hveragerðisbæ og sveitarfélaginu Ölfusi. Stærsti hópurinn vinnur hjá Kópavogsbæ að því er fram kemur í fréttatilkynningu Eflingar. 

„Þetta er fyrst og fremst fólk sem er að vinna í velferðarþjónustu, umönnunarstörfum, að vísu ekki leikskólum. En svo auðvitað líka almennir verkamenn hjá þessum sveitarfélögum.“

Vilja sýna samstöðu

Þá ákvað stjórn Eflingar í gær að láta fara fram atkvæðagreiðslu um ótímabundna samúðarvinnustöðvun frá 9. mars hjá um 240 félögum Eflingar, sem starfa í langflestum grunn- og leikskólum, sem eiga aðild að Samtökum sjálfstæðra skóla. Samúðarvinnustöðvunin er til stuðnings félögum í Eflingu, sem starfa hjá borginni. Viðar segir að kjarafyrirkomulag starfsmanna einkareknu skólanna taki mið af samningum við Reykjavíkurborg þar sem fólk er í verkfalli. 

„Þá hafa bara þessir félagsmenn okkar verið að hringja hér og spyrja hvers vegna erum við ekki líka í verkfalli. Vegna þess að þeir átta sig á því að þeirra kjör munu taka mið af Reykjavíkurborgarsamningum.“

Viðar segir að hjá sjálfstæðu skólunum sé hærra hlutfall Eflingarfólks en hjá Reykjavíkurborg. 

„Ég tel að þær aðgerðir muni hafa mjög skörp áhrif á rekstur einkarekinna skóla og leikskóla.“

Atkvæðagreiðsla um samúðarverkfallið stendur líka frá þriðjudegi til laugardags og verður niðurstaða ljós um aðra helgi. Enginn samningafundur hefur verið boðaður í yfirstandandi kjaradeilu Eflingar og Reykjavíkurborgar.