Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Efast um að flugfreyjur fái allt bætt

06.12.2019 - 14:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Haukur Örn Birgisson, hæstaréttarlögmaður og lögmaður Flugfreyjufélags Íslands, segist efast um að flugfreyjur fái launakröfur sínar í þrotabú WOW air greiddar að öllu leyti. Rúmlega fjögur hundruð flugfreyjur eiga forgangskröfur í þrotabúið.

Einhverjir launþegar sitja eftir með sárt ennið

Skiptastjórar þrotabúsins hafa samþykkt forgangskröfur í búið fyrir tæpa fjóra milljarða króna. Haukur Örn segist ekki vita hverjar eignir búsins séu en hann efist um að svo mikið sé í því. „Ég hugsa að einhverjir launþegar sitji eftir með sárt ennið þegar þessu ferli er lokið, fyrir utan það sem ábyrgðarsjóður launa ábyrgist.“

Ábyrgðarsjóður launa ábyrgist tilteknar launagreiðslur, að hámarki 633 þúsund krónur fyrir hvern mánuð, þegar félög fara í þrot, útskýrir hann. Flugfreyjur geta því átt von á að fá greitt að því marki, en ekki endilega umfram það, sé ekki nóg í þrotabúinu.

Haukur Örn segir að flestar kröfur flugfreyja varði laun fyrir fjóra mánuði, það er laun líkt og fyrir þriggja mánaða uppsagnarfrest og svo laun fyrir unna vinnu í mars, sem fékkst ekki greidd. Félagið fór í þrot rétt fyrir marslok. Kröfur flugfreyja eru því í mörgum tilvikum yfir þeirri upphæð sem Ábyrgðarsjóður launa ábyrgist. 

Mynd með færslu
 Mynd:

Ágreiningur um kröfur flugfreyja

Flugfreyjufélagið og skiptastjóra greinir á um ákveðnar kröfur sem skiptastjórar hafa hafnað. Forsvarsmenn félagsins funduðu með skiptastjórum í gær um þessi og fleiri atriði.

Haukur Örn segir að rætt hafi verið um röksemdir og ástæður þess að skiptastjórar höfnuðu ákveðnum kröfum flugfreyja og athugasemdum og mótmælum félagsins hafi verið komið á framfæri. Skiptastjórar taki athugasemdirnar til skoðunar og meti þær. Telji þeir þær réttmætar breyti þeir hugsanlega afstöðu sinni. Það verði að koma í ljós og liggi eflaust fyrir í næstu viku, þegar aftur verður fundað. 

Náist hins vegar ekki sættir „eru meiri líkur en minni á að þessi ágreiningsatriði verði send héraðsdómi til úrlausnar, eins og algengt er við gjaldþrotaskipti,“ segir Haukur Örn. Þá verði reynt að fá flýtimeðferð fyrir dómstólum. Takist það standi kannski vonir til að ágreiningurinn verði afgreiddur á fyrstu mánuðum næsta árs, „ef maður er bjartsýnn.“

Flugfreyjur stærsti kröfuhafinn í þrotabúið

Mál flugfreyjanna eru umfangsmikil og hópurinn var stærsti kröfuhafinn í þrotabúið með rúmlega fjögur hundruð kröfur. Kröfurnar eru mismunandi og flóknir útreikningar að baki þeim, segir í fundargerð sem send var félagsmönnum í kjölfar fundar hjá Flugfreyjufélaginu í byrjun mánaðar. 

Haukur Örn segir að launakjör flugfreyja séu oft frábrugðin því sem gengur og gerist hjá flestum öðrum almennum launamönnum. Þau séu gjarnan sett upp og sundurliðuð með öðrum hætti en á flestum launaseðlum.

Mynd með færslu
 Mynd:

Kröfu um yfirvinnu og sölulaun meðal annars hafnað

Helst greini aðila á um þrjá launaliði sem Flugfreyjufélagið telur til forgangskrafna en skiptastjórar ekki. Til að mynda hafi skiptastjórar hafnað kröfu um að flugfreyjur fái greidda kjarasamningsbundna launahækkun sem átti að taka gildi í byrjun mars. „Ég sé engar forsendur fyrir að hafna þessari kröfu,“ segir hann.

Þá hefur kröfu um yfirvinnu verið hafnað. Haukur Örn segir að yfirvinna sé hluti af föstum kjörum flugfreyja, enda ráði þær ekki sinni yfirvinnu sjálfar, heldur sé henni úthlutað til þeirra.

Loks var kröfu um sölulaun hafnað. Hluti af hagnaðnum af sölu á varningi og matvælum um borð fer til flugfreyja og er á meðal tekna þeirra, segir hann. Krafa félagsins miðast við meðaltalssölutölur síðustu tólf mánuði áður en flugfélagið fór í þrot.

Haukur Örn segir að litið sé svo á að bæta þurfi flugfreyjum það tjón sem þær urðu fyrir vegna þessarar fyrirvaralausu uppsagnar. Þær eigi að vera eins settar og félagið hefði ekki farið í þrot. Því sé þessi krafa gerð. 

Fá ekki endurgreiddan kostnað til að koma sé aftur heim

Þá hafa skiptastjórar hafnað því að krafa um að flugfreyjur fái útlagðan kostnað endurgreiddan sé forgangskrafa. Einhverjar flugfreyjur þurftu að leggja út fyrir kostnaði við að koma sér heim við gjaldþrotið, svo sem ferðakostnað, hótelgistingu og annan kostnað.

Haukur segir að það hafi verið mörg dæmi um þetta. Oft hafi þessi kostnaður hlaupið á tugum þúsunda króna. Engin rök séu fyrir því að hafna þessari kröfu. Þá segir hann að afstöðu skiptastjóra hafi verið mótmælt í fleiri tilfellum. Þó geti verið að skiptastjórar endurskoði það. Það verði að koma í ljós á næsta fundi.