Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Efast um að 600 milljóna króna lán dugi

Mynd: RÚV / RÚV
Fulltrúar minnihlutans í borgarstjórn segja að með auknum lánveitingum til Sorpu upp á sex hundruð milljónir sé verið að boða gjaldskrárhækkun og efast um að þetta dugi til að rétta af fjárhaginn. 

Fjárhagsleg staða og framtíð Sorpu bs. var til umræðu á fundi í morgun með borgar- og bæjarfulltrúum sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu sem eiga Sorpu. Fundurinn var lokaður fjölmiðlum.

„Það var kynnt hér að við munum leggja fyrir eigendur aðgerðaáætlun fyrir lok maí,“ segir Birkir Jón Jónsson, stjórnarformaður Sorpu bs.

Horft er til þeirra aðgerða sem gripið var til hjá Orkuveitunni. „Að búa til vinnuhópa, fylgja vinnu þeirra eftir, hafa skýr markmið og svo kemur út úr þessu samræmdur pakki af einhverjum aðgerðum. Við munum örugglega finna annað nafn en Planið,“ segir Helgi Þór Ingason, framkvæmdastjóri Sorpu.

Óskað er eftir því að sveitarfélögin ábyrgist sex hundruð milljóna króna lán sem Sorpa hyggst taka.

„Ég óttast að þetta dugi ekki. Þetta er í annað skipti sem sveitarfélögin eru að koma með neyðarlán. Reykjavíkurborg sem stærsti eigandinn að veðsetja skatttekjurnar. Ég óttast að það verði aftur,“ segir Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Þýðir þetta hækkun á gjaldskrám?

„Það getur mögulega gert það,“ segir Birkir Jón. Hann vill þó ekki segja til um hversu mikil sú hækkun getur orðið.

„Það er verið að boða hér hækkun á gjaldskrá sem er afleitt,“ segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins í Reykjavík. 

Geturðu séð fyrir þér hversu mikla hækkun?

„Nei, gatið er svo stórt að þetta hlýtur að verða þónokkuð mikil hækkun,“ segir Vigdís.

„Ég hef verið mjög hugsi yfir því umhverfi sem við setjum fyrirtækin okkar í. Þetta er í byggðasamlagsformi. Formið er þannig að það er mikil hreyfing á stjórnarmeðlimum. Loksins þegar aðilar eru komnir nægilega vel inn í málin þá eru útskiptingar,“ segir Þórdís Lóa.

„Okkur líst náttúrulega ekki beint vel á stöðuna en okkur líst ágætlega og vel á það plan sem nú er í gangi,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Sorpa keypti fjörutíu milljóna króna plastflokkunarvél sem tveir af eigendum ákváðu að nota ekki, Reykjavík og Kópavogur.

Hefði mátt afstýra einhverjum af þessum vandræðum ef sveitarfélögin hefðu nýtt þessa vél?

„Það má alveg spyrja sig þeirrar spurningar. Það var samþykkt á eigendavettvangi að fá þriggja manna hóp til þess að yfirfara álitamál eins og þetta,“ segir Birkir Jón.