Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Ef við getum ekki tekist á við þessa veiru hver þá?“

24.03.2020 - 16:00
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Hver getur tekist á við veiruna sem veldur COVID-19 veikinni ef ekki Íslendingar, þjóð með góða innviði, vel menntað heilbrigðisstarfsfólk og eiginleika til að standa saman þegar á þarf að halda? Þetta sagði Alma Möller landlæknir á blaðamannafundi almannavarna og landlæknis í dag.

 

Alma hóf mál sitt á því að vitna til andláts íslenskrar konu af völdum COVID-19 í gær. Konan er fyrsti Íslendingurinn til að látast af völdum sjúkdómsins. „Ég vil nota tækifærið og votta fyrir hönd okkar aðstandendum okkar dýpstu samúð,“ sagði Alma.

Landlæknir sagði að áfram yrði greint frá staðreyndum tímanlega og með ábyrgum hætti. „Við munum halda áfram að upplýsa um andlát en þarf að að vera á forræði viðkomandi stofnunar og það þarf að vera eftir að aðstandendur hafa fengið þann tíma og þann stuðning sem þeir kunna að þurfa.“ Hún bað fjölmiðla að sýna þessu skilning.

Alma sagðist svo vilja taka nokkuð fram sem hún meinti heilshugar: „Við erum upplýst og dugleg þjóð. Við eigum frábærlega menntað og duglegt heilbrigðisstarfsfólk. Við erum með góða innviði og kunnum að standa saman þegar á þarf að halda. Ef við við getum ekki tekist á við þessa veiru hver þá?“

 

Mynd: RÚV / RÚV