Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ef hann lemur þig, þá elskar hann þig

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Þó að upplýsingar séu á reiki er talið að á 40 mínútna fresti sé kona myrt af maka sínum í Rússlandi. Aðgerðarleysi rússneskra stjórnvalda í heimilisofbeldi er farið að vekja athygli út fyrir landsteinana.

Síminn hringir reglulega í hjálparmiðstöð í Sankti Pétursborg í Rússlandi. Miðstöð fyrir konur sem beittar eru ofbeldi inni á heimilum sínum. Þar er hjálparsími starfræktur allan sólarhringinn, en á virkum dögum geta konur leitað þangað eftir aðstoð. Þær fá ekki athvarf þar, en geta fengið ráðgjöf og aðra hjálp við að komast út úr aðstæðum sínum. Og þær eru ófáar rússnesku konurnar sem búa við heimilisofbeldi. 

Dagný Hulda Erlendsdóttir, fréttamaður, heimsótti þessa hjálparmiðstöð í Sankti Pétursborg í fyrra og ræddi við konurnar sem þar starfa.  

„Þær sögðu einmitt að það væri stórt vandamál, að heimilisofbeldi væri að mörgu leyti samfélagslega samþykkt,“ segir Dagný. 

„Það er svona ríkjandi þetta hugarfar að þetta gerist inni á heimilinu og á bara að vera inni á heimilinu og fólk á ekkert að vera að bera þetta á torg að það hafi lent í þessu. Og ekkert að vera að leita til löggunar. Þær sögðu einmitt rosalega mörg dæmi þess að konur hafi leitað til löggunnar, og það gera þær aldrei fyrr en þær eru algjörlega komnar í lífshættu. En fá þá þau svör að þær eigi bara að leysa þetta heima, hvað þær séu að leita með þetta til löggunar. 
Það viðhorf virðist vera ríkjandi.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons - http://www.marines.mil/unit/29pa

Um 12 þúsund konur myrtar árlega

Opinberum upplýsingum um tíðni heimilisofbeldis og um fjölda kvenna sem eru myrtar af mökum sínum er lítið sem ekki fyrir að fara í Rússlandi. Ýmis mannréttindasamtök hafa reynt að kortleggja vandann með ýmsum leiðum. 
Þannig er talið að árlega séu um 12.000 konur myrtar af maka sínum í Rússlandi.

Ef við deilum þessum fjölda niður á daga ársins er rússnesk kona myrt á um 40 mínútna fresti allan ársins hring.

Í kvennaathvarfinu í Sankti Pétursborg fékk Dagný sömuleiðis þær upplýsingar, að engar opinberar skráningar um heimilisofbeldismál væru til í Rússlandi. 

„Þær sögðu líka að mál væru ekki rétt skráð. Sum eru jafnvel ekki skráð því fólki er sagt að leysa þetta bara heima. Og svo eru mál kannski skráð sem slys, sem hafi ekki verið slys. Þannig að það er mjög erfitt að halda utan um þetta. En engu að síður sögðu þær að þetta væri rosalega stórt vandamál. Og sérstaklega af því viðhorfið er svona,“ segir Dagný. 

Systurnar myrtu föður sinn

Það er með þessar upplýsingar í farteskinu sem mál Khachaturyan systranna hefur vakið heimsathygli.  Að kvöldi 29.júlí í fyrra ákvað Mikhail Khachaturian að veita dætrum sínum þremur ráðningu fyrir að hafa ekki þrifið íbúð þeirra nógu vel. Hann kallaði þær eina af annarri inn í herbergi til sín þar sem hann gekk í skrokk á þeim og úðaði piparúða framan í þær. 

Síðar sama kvöld, þegar Mikhail sat dormandi í hægindastól sínum, réðust styrurnar þrjár, Krestina, Angelina og Maria, að föður sínum. Þær stungu hann með hnífi, börðu hann með hamri og úðuðu yfir hann piparúðanum. Þær hringdu sjálfar í lögregluna þegar ljóst var að faðir þeirra myndi aldrei framar veita þeim ráðiningu. 

Refsingar föðurins fyrr um kvöldið voru nefnilega ekki þær fyrstu, eða tíundu, eða tuttugustu. Mikhail Khachaturian skildi við barnsmóður sína fyrir nokkrum árum og bannaði dætrum sínum að hafa nokkurt samband við móður sína. Hjá föður sínum bjuggu þær við líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi árum saman. Ofbeldi, sem fyrst núna er til rannsóknar.

Það er sjaldgæft að gefinn sé kostur á rannsókn á meintum glæpum látinna einstaklinga i Rússlandi. Það leyfi var hinsvegar veitt í þessu tilfelli og rannsakendur skiluðu 22 blaðsíðna skýrslu í sumar. Þar er útlistað allt það hrottalega ofbeldi sem systurnar þrjár máttu þola af hendi föður síns árum saman, og þau áhrif sem langvarandi ofbeldið hefur haft á þær. Upplýsingar sem verjendur og aðrir stuðningsmenn stúlknanna vonast til að hjálpi til að fá þær lausar allra mála. 

Systurnar voru hnepptar í varðhald en ganga nú lausar. Þær mega þó hvorki tala við hvor aðra né við fjölmiðla þar sem ekki er búið að kveða upp dóm í málinu. 

Þær hafa aldrei þrætt fyrir að hafa myrt föður sinn en verjendur þeirra segja morðið vera framið eftir áralangt gróft ofbeldi af hálfu föðurins. Ofbeldi sem þær höfðu enga möguleika á að losna undan. 

Það sama var uppi á tengingnum hjá Olgu Sadykovu. Hún hafði margoft tilkynnt um ofbeldi og morðhótanir af hálfu eiginmanns síns, án þess að nokkuð væri að gert. Örlög hennar réðust þann 8.júlí síðastliðinn, á meðan átta ára sonur hennar horfði á. 

„Hún var stungin til bana af manninum sínum. Hún hafði leitað til lögreglu, en fékk enga hjálp,“ segir Dagný Hulda. 

Dregið úr refsingum árið 2017

Árið 2017 var samþykkt lagabreyting á rússneska þinginu. Breyting sem dró úr refsingum við ofbeldi. Samkvæmt nýju lögunum eru minni viðurlög við fyrsta ofbeldisbroti, svo framarlega sem fórnarlambið leggist ekki inn á sjúkrahús. 

„Lögin þóttu nú ekkert góð þolendum í vil fyrir. Svo voru refsingar mildaðar 2017, eins og til dæmis eitthvað sem áður varðaði fangelsisvist, nú fór að koma sektargreiðslur eða samfélagsþjónusta og kannski fangelsi í tvær vikur. 
Og þetta hefur gert þetta ennþá erfiðara,“ segir Dagný Hulda. 

Það verður nefnilega að hafa í huga áðurnefnd viðhorf til heimilisofbeldis, og í hve fáum slíkum málum er aðhafst. Talið er að um 3% allra mála er varða heimilisofbeldi í Rússlandi endi með sakfellingu. 

epa05541217 Government vehicles equipped with a blue strobe light drives in front of the Russian State Duma (The lower house of Russian parliament) building in Moscow, Russia, 15 September 2016. Russian opposition activists often demanded such strobe lights be prohibited. Parliamentary elections in Russia are scheduled to be held on 18 September 2016.  EPA/MAXIM SHIPENKOV
 Mynd: Maxim Shipenkov - EPA
Rússneska þingið.

„Mikill meirihluti á rússneska þinginu var fylgjandi þessum breytingum, 2017 og kirkjan, rússneska rétttrúnaðarkirkjan var fylgjandi þeim líka. Þær sögðu mér sérfræðingarnir í miðstöðinni að umræðan hafi ekkert farið hátt. Þetta var svona eitthvað sem bara gerðist og fór í gegn,“ segir Dagný. 

Engin ákvæði eru í rússneskum lögum sérstaklega um heimilisofbeldi. Þar er að finna ákvæði um sjálfsvörn og talað um refsilækkun eigi það við. Refsilækkunin er talin eiga rétt á sér þegar yfirvofandi og óvænt ógn vofir yfir, til að mynda við gíslatöku. Samlíking sem einhverjir þolendur heimilisofbeldis gætu líklega heimfært upp á ástand heimafyrir. 

En lítið reynir á sjálfsvarnarákvæðið þegar heimilisofbeldi er annars vegar og talið að 80% allra kvenna sem dúsa í fangelsi í Rússlandi sitji inni fyrir að hafa myrt eða meitt, oftast ofbeldisfullan, maka sinn. 

Mannréttindadómstóllinn fordæmir ástandið

Það hefur svo sem verið reynt að breyta lögunum, til dæmis árið 2012. Fjölskyldudeild rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar gerði hins vegar alvarlegar athugasemdir við orðalag hinna fyrirhuguðu lagabreytinga, og sögðu að með því að nota orðið heimilisofbeldi væri bæði verið að gera hugmyndum róttækra femínista hátt undir höfði auk þess að skrímslavæða karlmenn. 

Það er nefnilega við ramman reip að draga þegar víða í samfélaginu heyrist reglulega gamalt orðatiltæki. 

„Já það er orðatiltækið ef hann lemur þig þá elskar hann þig. Mér fannst þetta ótrúlegt þegar ég las þetta fyrst og ég spurði þær um þetta konurnar í miðstöðinni og þær sögðu að þetta væri svona. Þetta er úr einhverri bók á sextándu öld og hefur bara svona lifað. Og sumir segja þetta, og jafnvel konur,“ segir Dagný. 

En ekki allar konur. Valeriya Volodina bjó við áralangt ofbeldi og áreiti af hálfu kærasta og svo fyrrum kærasta síns. Hann sat um hana, beitti hana ofbeldi og nam hana á brott, svo fátt eitt sé nefnt. Hún reyndi að fara huldu höfði eftir að hafa reynt að ná augum og eyrum löggæsluyfirvalda og annarra stjórnvalda í heimalandinu árum saman. Hún hafði ekki erindi sem erfiði og leitaði næst á náðir Mannréttindadómstólsins í Evrópu. 

Dómur mannréttindadómstólsins féll henni í vil fyrr í sumar. Niðurstaðan snerist hins vegar ekki gegn brotamanninum sjálfum. Það væri fyrirkomulagið í Rússlandi þegar heimilisofbeldi er annars vegar, sem væri meingallað. 

„Það kom líka fram í úrskurði mannréttindadómstólsins að það væri ekkert tekið á því í rússneskum lögum hversu alvarlegt heimilisofbeldi er, almennt, það var ekki bara þetta mál. Það væru ekki nálgunarbönn eða önnur úrræði. Því nú er heimilisofbeldi flóknara en margt annað ofbeldi. Þannig að það þarf að beita öðrum sérstökum úrræðum. Þetta er ekki bara ein manneskja sem kýlir aðra. Og að þau úrræði væru ekki til staðar í rússneskum lögum,“ segir Dagný. 

Dómur Mannréttindsdómstólsins féll í sumar, og er talinn geta verið fordæmisgefandi fyrir fleiri samskonar mál. 

Þrýst á rússnesk stjórnvöld úr öllum áttum

Og nú eru yfir 300 þúsund búin að skrifa undir áskorun til rússneskra stjórnvalda að sýkna systurnar. En það eru fleiri sem safna undirskriftum. samtök sem kalla sig Man´s State, ríki karlmannsins, hafa safnað um 150 þúsund undirskriftum undir yfirskriftininni, Morðingja bak við lás og slá. Morðingjarnir verandi systurnar þrjár. 

En undirskriftirnar og dómur mannréttindadómstóls Evrópu er ekki eini þrýstingurinn á rússnesk stjórnvöld um að gera eitthvað í málunum. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by @lena.tulaeva on

 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by Алена Попова (Alena Popova) (@alenapopova) on

 

„Núna er vakning á Instragram þar sem konur pósta myndum af sér. Þær eru búnar að mála á sig, eða láta mála á sig áverka. Þetta gera þær undir myllumerkinu Ég vildi ekki deyja, eða #янехотелаумирать. Og svo eru þær búnar að skrifa þetta á hökuna, kinnina eða ennið. Það er búið að pósta þúsundum mynda, og með myndunum eru alltaf einhverjar sögur,“ segir Dagný. 

Svo eru margar kvennanna sem minnast á systurnar þrjár. 

„Ein sagði til dæmis að ef það væru lög í Rússlandi um heimilisofbeldi hefði þetta mál aldrei komið til. Það væri löngu búið að grípa inn í af því að pabbi þeirra beitti þær svo grófu ofbeldi,“ segir Dagný. 

Póstarnir skipta þúsundum. Mannréttindadómstóllinn gagnrýnir lagarammann í Rússlandi og æ fleiri vita af vandanum sem blasir við fjölmörgum rússneskum konum um allt landið. 

„Það er alveg ljóst að það er þrýstingur. En svo verður bara að koma í ljós hvort stjórnvöld láti undan honum,“ segir Dagný. 

 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV