Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

E.coli í fjórum sýnum úr Árneshreppi

01.08.2019 - 15:40
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Rúv
E. coli greindist í drykkjarvatni á fjórum stöðum hjá ferðaþjónustufyrirtækjum í  Árneshreppi. Gestir eru hvattir til að sjóða drykkjarvatn.

E.coli fannst á fjórum stöðum

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða vinnur nú að því að taka út fyrirtæki í ferðaþjónustu á Vestfjörðum og tekur meðal annars sýni úr drykkjarvatni. Heilbrigðiseftirlitið var á ferð í Árneshreppi á mánudaginn og niðurstöður lágu fyrir í dag. E.coli fannst í neysluvatni hjá Bergistanga gistingu og gistiskála, Kaffi Norðurfirði og í Verzlunarfélagi Árneshrepps.

Mikilvægt að fylgjast með perum í geislunartækjum

Víða nota fyrirtæki geislunartæki með perum sem senda frá sér útfjólublátt ljós til að eyða bakteríum í neysluvatni. Anton Helgason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, segir að það þurfi að fylgjast vel með að perunum í tækjunum sem hafa stuttan líftíma. Þá sé ekki sjálfgefið að það kvikni aftur á perunum ef rafmagn fer af. Ekki sjáist á neysluvatninu að í því séu e. coli-bakteríur.

Skipt um perur í geislunartækjum

Samkvæmt tilkynningu Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða er búið að skipta um perur í geislunartækjum fyrir Kaffi Norðurfjörð og unnið að peruskiptum á öðrum stöðum. Nýtt sýni verður sent inn á þriðjudag.