Dýrkeyptur þáttur um nýjan miðbæ á Selfossi

05.06.2019 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd: Sigtún Þróunarfélag
Fjölmiðlanefnd hefur sektað fjölmiðlafyrirtækið Hringbraut um eina milljón fyrir þáttinn Miðbær Selfoss í þáttaröðinni Atvinnulífið. Þátturinn var kostaður af þróunarfélaginu Sigtún sem stendur að uppbyggingu miðbæjarins og hann var sýndur rúmri viku áður en íbúakosning um miðbæjarkjarnann fór fram.

1941 kröfðust þess að fram færi íbúakosning um  deiliskipulag um miðbæ Selfoss sem verið er að reisa við hringtorgið við Ölfusárbrú. Skiptar skoðanir voru um hugmyndina á sínum tíma en að lokum fór það svo að meirihluti íbúa kaus með tillögunni.

Rúmri viku áður en íbúakosningin fór fram sýndi Hringbraut þátt í þáttaröðinni Atvinnulífið sem nefndist Miðbær Selfoss. Þátturinn var auðkenndur sem kostað dagskrárefni með kostunarskilti sem birtist í fimm sekúndu. Þar kom fram að þátturinn væri kostaður af þróunarfélaginu Sigtún. Í úrskurði fjölmiðlanefndar kemur fram að Sigtún sé framkvæmdaaðili þeirra framkvæmda sem kosið var um í íbúakosningunni. 

Fjölmiðlanefnd hafnar þeim rökum forsvarsmanna Hringbrautar að þátturinn hafi verið heimildaþáttur en ekki fréttaþáttur og að skoðunum beggja aðila hefði verið komið á framfæri.  Fjölmiðlanefnd segir að í þættinum hafi verið varpað ljósi á mál sem varðaði framtíðarhagsmuni almennings í Árborg.  Efni þáttarins hafi verið ofarlega á baugi í samfélagsumræðunni og sjónarhorn þáttarins og efnistök vísað til framtíðar en ekki fortíðar. 

Fjölmiðlanefnd horfir meðal annars til þess hversu alvarlegt brotið er en bæði þáttastjórnandi og allir viðmælendur þáttarins lýstu jákvæðri afstöðu til fyrirhugaðra framkvæmda.   Þá segir nefndin að ekki liggi fyrir að gerð hafi verið tilraun til að afla andstæðra sjónarmiða frá þeim sem höfðu krafist íbúakosninga um framkvæmdirnar heldur hafi forsvarsmenn Sigtúna verið látnir svara ætluðum gagnrýnisröddum. 

Var Hringbraut því sektuð um eina milljón króna.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi