Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Dýrafjarðargöng gera hringveg mögulegan

04.07.2019 - 11:27
Mynd með færslu
Þingeyri í Dýrafirði. Mynd:
„Dýrafjarðagöng eru kveikjan að þessu því með þeim er svæðið orðið þessi hringur sem hefur vantað,“ segir Díana Jóhannsdóttir, forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða. Samstarfssamningur Vestfjarðastofu og Vesturlandsstofu um Hringveg 2 var undirritaður í morgun. Þetta verður ný ferðamannaleið um sjö sveitarfélög á Vestfjörðum og Vesturlandi, alls um 850 kílómetra langur. Stefnt er að því að leiðin verði opnuð á sama tíma og Dýrafjarðargöng sem áætlað er að verði opnuð í september á næsta ári.

„Ég held að einangrun milli Norður- og Suður Vestfjarða sé eitthvað sem ekki margir gera sér grein fyrir,“ segir Díana. „Það tekur styttri tíma að aka frá Reykjavík til Patreksfjarðar að vetri til en frá Ísafirði til Patreksfjarðar.“

Í tilkynningu kemur fram að lagt sé upp með að nýi hringvegurinn verði aðdráttarafl fyrir svæðið allt árið. Það verði raunhæfur möguleiki eftir að Dýrafjarðargöng opna og í framhaldi af því heilsársvegur um Dynjandisheiði.

Díana segir að vonir standi til þess að opnun Dýrafjarðaganga verði nóg til að hægt verði að hafa leiðina opna allt árið. Það eigi eftir að koma betur í ljós þegar vetur gengur í garð. „Það var snjólétt í vetur og meira og minna haldið opnu í Dýrafirði.“

Vestfirðir eigi mikið inni 

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að gengið hafi verið frá samningi við breska ráðgjafafyrirtækið Blue Sail sem sérhæfi sig í þróun ferðamannaleiða eins og þessarar. „Vestfirðir eru minnst heimsótta svæðið á Íslandi. Við erum að horfa til þess að þetta sé stóra tækifærið okkar til að draga ferðamenn inn á svæðið. Við teljum það eiga mikið inni.“