Dúkur flettist af Hótel Selfossi

11.12.2019 - 12:47
Mynd: RÚV / RÚV
Eignartjón hefur orðið víða um land í illvirðinu sem gengur nú yfir landið. Veðrið er orðið skaplegra á suðvesturhluta landsins, en lægðin hefur fært sig austar og gengur nú yfir austur og suðausturhluta landsins.

Í gærkvöld og nótt var veðrið á Suðurlandi kolbrjálað og flettist meðal annars þakdúkur af þaki Hótel Selfoss. Rúða brotnaði þegar þakdúkurinn fauk af og voru gestir hótelsins fluttir í aðra hluta byggingarinnar. Á Selfossi náði vindhraði rúmlega 50 metrum á sekúndu þegar veðurofsinn var sem mestur. Slíku veðri muna heimamenn ekki eftir. Ljóst er að tjón hleypur á tugum milljóna króna.

Þá varð einnig tjón á Garðyrkjuskóla Landbúnaðarháskólans að Reykjum í Ölfusi þegar þak aðalbyggingarinnar fauk af. Þangað fóru liðsmenn Hjálparsveitar skáta í Hveragerði ásamt liðsmönnum Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði. Hópurinn gat hins vegar ekkert aðhafst þar sem aðstæður voru of hættulegar og ekki ráð að hætta mannskap í þetta verkefni. Sunnlenska.is greinir frá þessu. Björgunarsveitir á Suðurlandi sinntu fjölda útkalla í gærkvöld og í nótt.

Selfyssingar beðnir um að spara heita vatnið

Í tilkynningur frá Selfossveitum eru íbúar hvattir til að fara sparlega með heitt vatn næstu daga vegna yfirgnæfandi frostatíðar. Þar segir að fólk geti sparað heitt vatn og þar með kyndikostnað sinn með því að gæta að því að gluggar séu ekki opnir og útidyr ekki látnar standa opnar lengur en þörf er á. Þá skipti einnig máli stillingar ofna, að óþarflega heitt vatn renni ekki frá þeim og að ofnarnir séu ekki byrgðir, til dæmis með síðum gluggatjöldum eða húsgögnum. Þá séu heitir pottar við heimili talsvert þurftarfrekir á vatnið og gott að hafa í huga að fara sparlega með neysluvatn eins og við uppvask og böð.

Hér að ofan má sjá myndskeið af ástandinu á Selfossi sem tekið var í morgun. 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi