Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Drumburinn 3000 ára gamall og féll í skyndi

04.12.2017 - 09:27
Fornir trjádrumbar sem nýverið komu undan Breiðamerkurjökli hafa verið aldursgreindir og reyndust vera rúmlega 3000 ára gamlir. Náttúrulandfræðingur telur að þeir hafi verið hluti af miklum skógi sem hvarf þegar kólnaði á Íslandi við lok hins svokallaða síðara birkiskeiðs.

Líklegast að jökullinn hafi rutt skóginum í burtu

Annar trjádrumburinn fannst á Breiðamerkursandi í haust og í leiðangri til að sækja hann fannst annar enn stærri. Sá minni var tekinn til rannsóknar en sá stærri verður sóttur síðar en tekið var sýni úr honum til aldursgreiningar. Drumburinn hefur verið í frysti í geymslu Náttúrustofu Suðausturlands á Hornafirði. Auk aldursgreiningar á viðnum hefur skógfræðingur rannsakað sneið úr bolnum. „Þetta tré er með 89 árhringjum og það dó í júnímánuði. Og það dó mjög skyndilega. Líklegasta orsökin er auðvitað sú að jökullinn hann hafi komið þarna við sögu annaðhvort það eða einhverskonar flóð,“ segir Snævarr Guðmundsson, náttúrulandfræðingur og sviðsstjóri hjá Náttúrustofu Suðausturlands. Ummerki á fundarstaðnum og setlögin umhverfis lurkinn bendi til þess að það hafi frekar verið jökullinn sem ruddi skóginum í burtu.

Frá tíma þegar talið er að hálendið hafi verið gróið

Miðað við að drumbarnir séu 3000 ára gamlir eru þeir frá því seint á hinu svokallaða síðara birkiskeiði. Þeir eru því frá tíma þegar Ísland var vaxið mun meiri skógi en landnámsmenn sáu og hálendið var gróið að talið er. Það hófst með hlýnun fyrir um 5000 árum og stóð til um 500 fyrir Krist en þá fór að kólna. „Og það er vitað að eftir það þá kom vöxtur í jökla á Íslandi og þess vegna er ekkert ósennileg tilgáta allavega að mögulega hafi það verið jökullinn sem hafi rutt niður þessum skógi þarna,“ segir Snævarr.

Örlög lurkanna og aldur þeirra komi heim og saman við nýlegar rannsóknir á Lagarfljóti og Hvítárvatni sem sýni að á þessum tíma tóku jöklar að vaxa vegna veðurfarsbreytinga.

Fylltur af vaxi og hafður til sýnis

Hinir 3000 ára gömlu lurkar verða eflaust rannsakaðir í bak og fyrir. „Það er alveg ótrúlegt hvað hann er vel með farinn eftir að hafa legið undir jökli og að hann skuli enn vera svona heillegur en ekki saman krumpaður eins og mörg af þeim sýnum sem við höfum fundið. Það er alveg stórmerkilegt. Og hann er eiginlega svo unglegur má segja að ef hann myndi segja manni hvað hann væri gamall þá myndi maður helst vilja spyrja hann um nafnskírteini. Núna erum við að fara með hann í forvörslu hjá Þjóðminjasafninu og þar er hann verkaður á ákveðinn hátt. Það er dregið úr honum vatnið en á móti þá er hann fylltur af vaxi. Þetta er sérstök forvörsluaðferð. Og eftir það verður hann væntanlega sýningargripur hérna eða í Vatnajökulsþjóðgarði,“ segir Snævarr Guðmundsson. 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV