
Krían flýgur frá Norðaustur-Grænlandi og Íslandi í ágúst. Hún stoppar í mánuð í miðju Atlantshafi, milli Nýfundnalands og Englands. Svo eltir hún sumarið og flýgur með hléum til vetrarheimkynnanna í Weddellhafi við Suðurheimskautið og er komin þangað í desember.
Paradísarþernan er latneska heiti kríunnar en þó telja líklega fæstir sig vera komnir í einhvern sælureit þegar þeir eru í kríuvarpi. Þrátt fyrir smæð sína, en fuglinn vegur ekki nema 110 grömm, er krían ótrúlega hörð af sér. Vegna aðgangshörku sinnar við þá sem nálgast kríuvarp, kjósa margir fuglar að njóta verndar kríunnar og verpa í nágrenni hennar.
Og nú er þessi tignarlega drotting háloftanna komin til landsins. Ólafur segir að fyrst eftir heimkomuna haldi krían sig á sjó og nærist á sandsílum. Eftir nokkra daga fer hún á varpstöðvarnar en er laus við fyrstu dagana. Í góðum árum verpir krían um miðjan maí en þegar lítið er um æti getur varpið dregist um mánuð.
Ólafur segir að viðvarandi ófremdarástand sé á sandsílastofninum, uppáhaldsfæðu kríunnar. Því hafi verið viðkomubrestur hjá kríunni bæði í fyrra og árið 2017. Til að bæta sér upp sandsílaskortinn etur krían rykmý, fiðrildi og hornsíli í Reykjavíkurtjörn og víðar.
Krían var ekki búin að gera sig heimakomna við Reykjavíkurtjörn um helgina. Þar gekk fréttamaður hins vegar fram á rauðhöfðapar sem er fremur sjaldgæfur gestur þar. Þá sást þar skarfur kafa eftir hornsílum.
Fram kemur á vef Náttúruminjasafns Íslands að krían er eini íslenski fulltrúi þernuættarinnar.