Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dróni myndaði skipverja við brottkast

02.08.2019 - 09:43
Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæsla Íslands
Dróni á vegum Landhelgisgæslunnar stóð skipverja á færeyska skipinu Stapin að meintu ólöglegu brottkasti. Það er fimmta sinn í sumar sem eftirlitsdróninn myndar meint brottkast, segir Ásgrímur Ásgrímsson framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.

Morgunblaðið greindi frá. 

Í samtali við fréttastofu segir Ásgrímur að dróninn fylgist með fiskveiðum almennt. Þá sé hann nýttur til að hafa uppi á skipum sem hverfa úr sjálfvirkri tilkynningarskyldu af einhverjum ástæðum þar á meðal vegna þess að þau sigli inn á svokallað skuggasvæði.

Þá hefur eftirlitsdróninn fimm sinnum staðið skipverja að verki við meint ólöglegt brottkast í sumar. Ásgrímur segir að dróninn auðveldi eftirlit með slíkri iðju. Í samtali við Morgunblaðið segir Ásgrímur að í hin fjögur skiptin hafi hann staðið íslenska báta að verki við þessa iðju.

Ásgrímur segir að samkvæmt íslenskum lögum eigi að koma með allan afla sem veiðist að landi. Brottkast er þegar fiskum er kastað í sjóinn sem annars ætti að koma með í land. 

Landhelgisgæslan hefur afnot af eftirlitsdróna Siglingaöryggisstofnunar Evrópu í sumar. Vonir standa til að gæslan fái áfram að hafa not af drónanum í framtíðinni, segir Ásgrímur. 

Dróninn flýgur um austanvert landið og hálft sunnan- og norðanvert landið, segir hann. Hann getur verið á lofti í allt að tíu tíma og farið um 700 kílómetra frá landi.