Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Drónaárás á olíuvinnslustöðvar í Sádi-Arabíu

14.09.2019 - 10:14
epa07841156 (FILE) - A gas flame behind pipelines in the desert at Khurais oil field, about 160 km from Riyadh, Kingdom of Saudi Arabia, 23 June 2008 (reissued 14 September 2019). According to Saudi state-owned oil company Aramco, two of its oil facilities in Saudi Arabia, Khurais and Abqaiq, were set on fire after allegedly having been targeted by drone attacks.  EPA-EFE/ALI HAIDER
Khurais-olíuvinnslustöðin. Mynd: EPA-EFE - EPA
Drónaárás var gerð í nótt á tvær olíuvinnslustöðvar ríkisfyrirtækisins Aramco í Saudi-Arabíu. Mikinn reyk lagði yfir borgina Abqaiq í austurhluta landsins áður en önnur árás var gerð á vinnslustöð nærri Khurais.

Árásirnar ollu eldsvoða í vinnslustöðvunum, en búið er að ná tökum á eldunum eftir því sem breska ríkisútvarpið hefur eftir ríkismiðlum Sádi-Arabíu. Stöðvarnar tvær framleiða samanlagt tæpar tíu milljónir tunna af olíu á dag.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum, en spjótin beinast gegn Hútum í Jemen. Þeir hafa fært sig upp á skaftið gegn Sádum með flugskeyta- og drónaárásum undanfarna mánuði. Meðal annars gerðu þeir flugskeytaárás á flugvöllinn í Abha í suðurhluta Sádi-Arabíu í júlí.

Fjölþjóðlegt herlið, leitt af Sádum og Sameinuðu arabísku furstadæmunum, hefur reynt að koma stjórnarhernum í Jemen til hjálpar gegn Hútum frá árinu 2015. Alvarlegar ásakanir um árásir sem jaðra við stríðsglæpi ganga á víxl, en stríðið í Jemen hefur valdið miklum hörmungum í landinu.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV