Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Drekabyggð, Austurþing og Múlaþinghá meðal tillagna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Fjögur sveitarfélög á Austur
Austur- eða Drekabyggð, Eystraþing eða Múlaþinghá og sveitarfélagið Austri eru meðal tillagna nafnanefndar að nýju nafni sameinaðs sveitarfélags Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar. 17 tillögur hafa verið sendar til örnefnanefndar til umsagnar. Íbúar kjósa um þrjár til fimm samhliða sveitarstjórnarkosningum í apríl sem verður leiðbeinandi fyrir nýja sveitarstjórn. 

Í rökstuðningi nafnanefndarinnar segir að staðsetning sameini íbúa einna helst og því hafi forliðirnir Austur-, Eystri- og Eystra- orðið fyrir valinu. 

 • Austurbyggð
 • Austurbyggðir
 • Austurþing
 • Austurþinghá
 • Eystraþing
 • Eystribyggð
 • Eystribyggðir
 • Eystriþinghá

Forliðurinn Dreka- vísar til landvættar Austurlands í skjaldarmerkinu.

 • Drekabyggð
 • Drekabyggðir
 • Drekaþing
 • Drekaþinghá

Forliðurinn Múla- er vísun í fjallið Þingmúla í Skriðdal sem svæðið hefur lengst af verið kennt við og nefndin segir næst því að vera miðpunktur nýs sveitarfélags. 

 • Múlabyggð
 • Múlabyggðir
 • Múlaþing
 • Múlaþinghá

Nefndin telur eftirliðinn -byggð vísa til dreifðra svæða, -þing til stjórnsýslu sem dæmi eru um í nokkrum sveitarfélögum og eftirliðurinn -þinghá sé einstakt fyrir svæðið, þar sem það sé meira notað innan marka nýs sveitarfélags en víðast hvar annars staðar, samanber Eiðaþinghá og Hjaltastaðarþinghá.

Ein tillaga sker sig úr og það er Sveitarfélagið Austri sem er tilvísun í dverginn Austra sem höfuðáttin er kennd við. Austri er einn fjögurra dverga í norrænni goðafræði sem standa hver á sínum enda jarðarinnar og halda himninum uppi.

Þegar örnefnanefnd hefur gefið umsögn velur nafnanefndin þrjár til fimm tillögur sem íbúar hafa kost á að kjósa um samhliða sveitarstjórnarkosningunum 18 apríl, sem samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið hefur formlega staðfest sem kjördag. Kosning um nýtt nafn verður ekki bindandi, því ný sveitarstjórn ákveður heitið.