Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Dregur úr stuðningi við flugvöllinn

03.02.2016 - 12:54
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
59 prósent landsmanna eru hlynntir því að framtíðarstaðsetning flugvallarins verði í Vatnsmýrinni. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu. Stuðningurinn hefur þó minnkað umtalsvert frá árinu 2013 þegar 72 prósent var hlynnt núverandi staðsetningu. Aðeins 22 prósent eru andvígir því að hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni.

Könnun Maskínu var gerð dagana 15.-26. janúar. Alls svöruðu 847 og svarhlutfall tæplega 50 prósent af upphaflegu úrtaki.

19 prósent er í meðallagi hlynnt því að hafa flugvöllinn í Vatnsmýri – sá hópur var 10 prósent fyrir þremur árum. 

Fram kemur á vef Maskínu að enginn munur sé á afstöðu kynjanna – konur voru hlynntari staðsetningu flugvallarins en karlar árið 2013. 

Engin breyting er á afstöðu fólks eftir búsetu – íbúar landsbyggðarinnar eru sem fyrr hlynntari núverandi staðsetningu en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Kjósendur stjórnarflokkanna eru hlynntari því að hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni en þeir sem styðja stjórnarandstöðuflokkanna – kjósendur Pírata og VG eru þó hlynntari að hafa flugvöllinn á sínum stað en andvígir því.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV