Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dregin í valdakapphlaup með óskýrum skilaboðum

05.09.2019 - 20:57
Mynd: Kastljós / Rúv
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði að hún væri skítlogandi hrædd við að blanda viðskipta- og varnarmálum saman. Ríkisstjórnin hefði sent óskýr og misvísandi skilaboð við heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, í gær. Með óskýrum skilaboðum ríkisstjórnarinnar værum við að sjá Ísland dragast inn í valdakapphlaup Kína og Bandaríkjanna. Betra væri að vera í samstarfi við þjóðir sem slái skjaldborg um ákveðin gildi sem þessar tvær þjóðir eru ekki með efst á blaði.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, varaformaður Vinstri Grænna sagði, í Kastljósi kvöldsins, að á alþjóðlegum fundum ráðamanna væri ekki bara eitt mál tekið fyrir og rætt. Við gætum verið stolt af því hvernig tekið var á móti Pence í gær. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefðu náð að koma skilaboðum á framfæri við Pence. Þá kom Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á hjóli til fundar við varaforsetann.

Ættum að hafna vígbúnaðarkapphlaupi

Þorgerður Katrín sagði að gæta þurfi að loftslagsmálum á Norðurlöndunum, það skipti máli varðandi öryggi landsins. Kolbeinn sagði að ef okkur væri alvara með að standa vörð um okkar þjóðaröryggisstefnu ættum við að hafna vígbúnaðarkapplaupi. Þjóðaröryggisstefna okkar gangi meðal annars út á loftslagsmál. Vígbúnaðarkapphlaup fari hins vegar þvert á loftslagsmál og því beri að hafna því.

Mikilvægt að líta til annarra Norðurlandaþjóða

Þorgerður Katrín sagði að fara þyrfti varlega með fjárfestingarverkefni Kínverja, Belti og braut. Við ættum ekki að stíga þessi skref að óathuguðu máli. Þá væri mikilvægt að fylgjast með hvað aðrar Norðurlandaþjóðir væru að gera í þessum efnum og vera í samstarfi við þær. 

Belti og braut er stórtækt samgöngu- og viðskiptaverkefni kínverskra stjórnvalda og snýr að því að tengja Kína við markaði um nánast allan heim í lofti, láði og legi. Hundrað þrjátíu og átta ríki koma að verkefninu með einum eða öðrum hætti og stendur Íslandi það til boða. Ekki hefur verið tekin afstaða til þess, líkt og fram kom í máli forsætisráðherra og utanríkisráðherra í gær. Sendiherra Kína á Íslandi, Jin Zhijian, segist hafa óskað eftir fundi með ráðamönnum til að ræða málið í samhengi við ummæli Pence.