Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Dregið hefur úr skjálftavirkni við Grindavík

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Dregið hefur úr skjálftavirkni við Grindavík síðustu daga en það mælast þó enn smáskjálftar á svæðinu, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands en þar er fylgst með virkni á svæðinu allan sólarhringinn.

Yfir 1.500 skjálftar hafa mælst á svæðinu síðan 21. janúar og eru þeir flestir staðsettir í suðvestur/norðausturstefnu um tvo kílómetra norðaustur af Grindavík.

Vísbendingar eru um breytt mynstur í jarðskorpuhreyfingum, en enn má sjá merki um áframhaldandi landris, segir á vef Veðurstofunnar. Í heildina hefur land risið yfir 5 sentimetra frá 20. janúar. Með landrisi má búast við áframhaldandi jarðskjálftavirkni og er líklegasta skýring hennar kvikuinnskot á þriggja til fimm kílómetra dýpi rétt vestan við fjallið Þorbjörn.