Drangajökull úrskurðaður þjóðlenda

21.02.2020 - 18:33
Mynd með færslu
Hluti af korti óbyggðanefndar um landamerki og kröfur landeigenda. Mynd: Óbyggðanefnd
Óbyggðanefnd kvað í dag upp þann úrskurð að Drangajökull væri þjóðlenda. Úrskurðarins hefur verið beðið með eftirvæntingu, ekki síst vegna hugsanlegra áhrifa hans á deilur um Hvalárvirkjun. Úrskurðurinn hefur ekki beint gildi þar en umfjöllun nefndarinnar um landamerki kann að nýtast deilandi fylkingum í dómsmálum í framtíðinni. Deilt hefur verið um landamerki vegna virkjunarinnar og því hafa deilendur meðal annars beðið röksemdafærslu óbyggðanefnd í úrskurði sínum.

Óbyggðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að engin landamerki gefi til kynna að eignarland bænda nái inn á Drangajökul þar sem hann liggur innan marka Strandasýslu. Því varð óbyggðanefnd við kröfu fjármálaráðuneytisins að lýsa þann hluta Drangajökuls þjóðlendu.

Það hvernig óbyggðanefnd komst að þeirri niðurstöðu kann að hafa áhrif á framhald virkjanaframkvæmda við Hvalárvirkjun og deilur landeigenda um hvar landamörk liggja. Deilt er um hvort fyrirhuguð virkjun og uppistöðulón er innan Engjaness, og þar með í eigu virkjunarsinna, eða Drangavíkur, og þar með í eigu andstæðinga virkjunar.

„Samkvæmt gögnum sem Hvalárvirkjun byggir á nær Engjaneslandið upp undir jökul. Þar á meðal er fyrirhugað uppistöðulón virkjunar. Meirihluta eigenda Drangavíkur greinir þó á um það við eigenda Engjaness hvort umrætt svæði, þar á meðal fyrirhugað uppistöðulón og virkjun, sé innan landamerkja Drangavíkur eða Engjaness. Eigendur beggja jarðanna byggja á þinglýstum landamerkjabréfum frá 1890 en túlka þau hvorir með sínum hætti. Engjanes var selt út úr Drangavíkurlandi á sínum tíma. 

Á korti sem fylgir úrskurði óbyggðanefndar má m.a. sjá kröfulínu vegna Drangavíkur sem sýnir hvar meirihluti eigenda jarðarinnar telur að merki jarðarinnar liggi samkvæmt landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1890.“ Samkvæmt því er Eyvindarfjarðarvatn þar sem á að reisa stíflu og gera miðlunarlón ekki hluti Engjaness heldur Drangavíkur. Ítalski baróninn sem á Engjanes styður virkjun en meirihluti eigenda Drangavíkur er henni alfarið mótfallinn.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurgeir Skúlason - Aðsend
Ólíkar útfærslur deildandi fylkinga í virkjanamálum um landamerki.

Viðbrögð fyrir vestan

Elías Kristinsson á Dröngum sem barist hefur gegn virkjun telur að röksemdafærsla óbyggðanefndar geti reynst virkjunarandstæðingum hagstæð. Í henni sé tekið undir gildi landamerkjabréfsins frá 1890. „Þetta eru gleðifréttir,“ segir Elías. Þetta megi nota til rökstuðnings í deilum fyrir dómstólum og stofnunum um hverjir eigi í raun landið undir Drangajökli og hverjir ráði því hvort þar verði virkjað eða ekki.

Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks, sagði í samtali við fréttastofu að við fyrstu sýn hefði niðurstaða óbyggðanefndar ekki áhrif á deilumál um virkjunina. Hún tók þó fram að hún væri nýbúin að fá skýrsluna í hendur og starfsmenn fyrirtækisins ættu eftir að fara í gegnum hana.

Fréttin hefur verið leiðrétt.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi