Dragsýning sem tekur sig ekki alvarlega

Mynd: Endurnýttar væntingar / Endurnýttar væntingar

Dragsýning sem tekur sig ekki alvarlega

17.10.2019 - 11:03

Höfundar

Dragfögnuður fjöllistahópsins Endurnýttar væntingar er fersk og skemmtileg sýning sem tekur sig ekki of alvarlega. Snæbjörn Brynjarsson skemmti sér vel og segir að aðdáendur drags á Íslandi ættu ekki að láta hana fara framhjá sér.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Fjórar Brynhildar stigu fram í sviðsljósið í Tjarnarbíói síðasta fimmtudag á frumsýningu á Endurminningum Valkyrju, endurnýttum væntingum.

Brynhildarnar dönsuðu, þær sungu, þær röppuðu, þær játuðu og sögðu sína sögu, fjórar mismunandi sögur frá fornöld, allt á máta sem ég held að sé nokkuð nýstárlegur í leikhússögu Brynhildar. Sagnapersónan Brynhildur er nefnilega ævaforn eins og var vel rakið í leikhúsinu, fyrsta útgáfan var Brunhilda, eiginkona Siegberts Frankakonungs, prinsessa af Ástrasíu, sem lifði eins og svo margar Brynhildar sem síðar komu einkar melódramatísku lífi. Frægasta útgáfan er auðvitað sú sem Wagner skrifaði inn í Nibelungen, valkyrjan, Óðinsdóttir, eiginkona Sigurðar Fáfnisbana, sem lítur reyndar einnig við í sýningunni í brúðuformi.

Það er ekki ætlunin að rekja allar þessar fjórar sögur hér, en ljóst er að innblástur sýningarinnar kemur bæði úr fornkvæðum, óperum og öðrum Brynhildar-tengdum skáldskap, sýningin snýst nefnilega ekki svo mikið um sögu Brynhildar, heldur ímynd hennar, þessarar kvenhetju, prinsessu, elskhuga, stríðsmanns. Sýningin er nefnilega Drag-sýning. Í meðferð hópsins verða æviskeið Brynhildanna ekki bara harmþrungin kvæði, heldur tragíkómísk söng og dansatriði, endurtúlkuð með samtímadans, ballett, söngleikjastíl og rappi meðal annars.

Höfundar sýningarinnar eru Ásgeir Helgi Magnússon, Cameron Corbett, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Sigurður H. Starr Guðjónsson, en flytjendur verksins Agatha P., Faye Knús, Gógó Starr & Sigga Eyrún. Þetta eru allt saman magnaðir performerar. Sigga Eyrún á mikil tilþrif sem rappari og kraftmikill söngvari, Gógó Starr er ótrúlega fyndin sem hin íslenska útgáfa Brynhildar og bæði Agatha P. og Faye Knús eiga mjög voldugar senur sem dansarar. Það kemur nú ekki sérlega á óvart. Ásgeir og Cameron eru reyndir og hæfileikaríkir dansarar og ég vona að þeir eigi eftir að skapa fleiri verk á næstunni. Ég hafði ekki séð Gógó Starr, eða Sigurð, áður á sviði en hann finnst mér vera efni í góðan gamanleikara. Sigríði Eyrúnu hef ég séð alltof sjaldan á sviði, ég vona innilega að hún fái meira að gera í íslensku leikhúsi á næstunni, stór hlutverk í söngleik eða eitthvað álíka sem gerir henni kleift að njóta sín sem söngkona.

Júlíanna Lára Steingrímsdóttir hannar búninga og sviðsmynd og leikur sér með gamlar leikhúsklisjur. Maður áttar sig strax á því að það er klámfenginn húmor í forgrunni þegar maður sest niður og sér fortjaldið, þar sem einkar glæsilegir falluslaga kastalaturnar rísa, háir og breiðir. Það er líka húmor í búningunum sem sækja innblástur sinn í víkingamótíf og wagnerísk minni, en þeir eru mjög vel heppnaðir, silfraðir og stílhreinir. Því miður voru ekki búningaskipti eftir hlé, sýningin ólíkt mörgum öðrum í sjálfstæðu senunni kom með hléi. Það þótti mér miður því það hefði verið gott tækifæri til að hrista aðeins upp í sýningunni. Tónlistin kemur úr öllum áttum, óperum, poppi og svo frumsamdir kaflar. Textasmíðin var þannig að maður skellti oft upp úr. Textarnir voru hnyttnir og vel fluttir, en ég verð að játa að mér fannst synd að verkið væri á ensku. Það er kannski óhjákvæmilegt þegar einn flytjendana er ekki með þannig tök á íslensku að hann eða hún treysti sér ekki til þess að flytja verk á íslensku, en ákvörðunin er líka skiljanleg út frá því sjónarmiði að mikið af lagatextum sem ekki eru frumsamdir eru á ensku.

Á heildina litið er þetta fersk og skemmtileg sýning. Hún ætlar sér ekki að svara djúpum rannsóknarspurningum eða vera með samfélagsleg skilaboð, eins og eiginlega alltof mikið af verkum í sjálfstæðu senunni ætla sér, þetta er drag-sýning sem tekur sig ekki of alvarlega og kemur manni í gott stuð fyrir helgina. Ef fólk vill sjá söng, dans, misklúra gamanþætti þá er þetta ágætisvalmöguleiki. Persónulega þá held ég að ég hafi ekki skemmt mér jafn vel á nokkru öðru verki þetta haust, og vona að allir aðdáendur drag á Íslandi passi upp á að missa ekki af þessari kvöldskemmtun.