Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Draga úr spillingu með skráningu hagsmunavarða

19.08.2019 - 11:18
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Setja á reglur um samskipti stjórnmálamanna og hagsmunavarða til þess að gera samskipti þeirra gangnsærri. Þetta er liður í því að draga úr spillingu á Íslandi. Forsætisráðuneytið vinnur að undirbúningi lagasetningar til að uppfylla tilmæli GRECO, samtaka ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu.

Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Miðflokksins, sem birt var á vef Alþingis á föstudag. Ólafur spurði ráðherra hvort almannatenglum verði gert skylt að skrá hagsmuni sína þegar þeir taka þátt í umræðum um þjóðmál á opinberum vettvangi.

Meðal þess sem GRECO leggur til er að settar séu reglur um samskipti handhafa framkvæmdavalds við hagsmunaverði, sem í daglegu tali og upp á enska tungu kallast lobbíistar. Hagsmunaverðir ganga erinda fyrirtækja og einstaklinga og reyna að hafa áhrif á lagasetningu og dagskrárvald framkvæmdavaldsins í málum sem snerta umbjóðendur þeirra.

„Ekki hefur komið til skoðunar að hagsmunaverðir skrái hagsmuni sína í sama skilningi og nú gildir um hagsmunaskráningu ráðherra og alþingismanna en æskilegt kann að vera að skrá um hagsmunaverði innihaldi upplýsingar um verkkaupa og vinnuveitendur,“ segir í svari forsætisráðherra. Þar segir einnig að hliðsjón verði höfð af erlendum fyrirmyndum og tillögur að reglum bornar undir helstu hagsmunaaðila og almenning.