Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Dorrit flytur lögheimili sitt

15.06.2013 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Dorrit Moussaieff, forsetafrú, flutti lögheimili sitt frá Íslandi til Bretlands 27. desember síðastliðinn. Hún og Ólafur Ragnar Grímsson eru skráð í þjóðskrá sem hjón ekki í samvistum.

Dorrit segist í yfirlýsingu hafa gert ráðstafanir á grundvelli skattalaga, til að geta sinnt vinnu sinni og öldruðum foreldrum í London, þegar horfur voru á að Ólafur Ragnar yrði ekki lengur forseti.

Fram kemur í fréttablaðinu í dag að Dorrit Moussaieff, forsetafrú, eigi ekki lengur lögheimili á Íslandi. Fréttastofa hefur upplýsingar um að flutningurinn til Bretlands hafi gengið í gegn 27. desember síðastliðinn, fjórum dögum fyrir áramót. Dorrit og Ólafur Ragnar Grímsson eru skráð í þjóðskrá sem hjón ekki í samvistum. 

Dorrit sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í dag. Þar segir að þegar horfur voru á að eiginmaður hennar yrði ekki lengur forseti hafi hún gert ráðstafanir til að geta sinnt meira fyrri störfum sínum í London, einkum í ljósi þess að foreldrar hennar, stjórnað hafi fjölskyldufyrirtækinu, séu nú háaldraðir. Hún hafi breytt lögheimili sínu samkvæmt ráðleggingum lögfræðinga á grundvelli laga um tekjuskatt. Þar komi fram að svo geti verið ástatt hjá hjónum að annar makinn sé skattskyldur ótakmarkað vegna heimilisfesti hér á landi, en hinn makinn með takmarkaða skattskyldu, þ.e. ekki með lögheimili. Ákvæðin eigi einkum við erlenda ríkisborgara og tvísköttunarsamninga. 

Viðskiptablaðið greindi frá því í ágúst síðastliðnum að Dorrit Moussayeff greiddi ekki auðlegðarskatt á Íslandi. 

Lögmaðurinn og endurskoðandinn Garðar Valdimarsson gætir hagsmuna Dorritar gagnvart íslenskum skattyfirvöldum. Hann var skattrannsóknarstjóri á árunum 1976 til 86 og varð þá skattstjóri. Hann gegndi því embætti til ársins 1999. Hann vildi ekki tjá sig um lögheimilisflutning Dorritar í samtali við fréttastofu, og kvaðst bundinn trúnaði gagnvart umbjóðendum sínum.