Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Dorrit ákvað að láta klóna Sám

27.10.2018 - 12:11
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú, ákvað að láta klóna hundinn Sám sem setti svip sinn á Bessastaði í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar. Þessu greindi Ólafur Ragnar frá í morgun. Hann sagði að sýni hefðu verið tekin úr Sámi og send til fyrirtækis í Texas í Bandaríkjunum sem hefði ræktað úr þeim frumur. Úr þeim er hægt að klóna Sám hvenær sem er.

Ólafur Ragnar var gestur í Morgunkaffinu á Rás 2. Þar fjallaði hann í fyrri hluta viðtalsins um Arctic Circle og umhverfismál en í síðari hlutanum um persónulegri mál, þar á meðal hundinn Sám. Eftir að hafa sagt nokkuð frá Sámi og lífinu með honum sagðist forsetinn fyrrverandi ekki viss um hvort hann ætti að segja það næsta sem kom upp í hugann, en lét svo verða af því eftir hvatningu þáttarstjórnenda.

„Sámur er orðinn nokkuð gamall, hann er orðinn ellefu ára. Þannig að Dorrit ákvað að láta klóna hann. Það eru sem sagt tvö fyrirtæki í heimi sem klóna hunda. Annað er í Texas og hitt er í Suður-Kóreu,“ sagði Ólafur Ragnar. „Við fórum til dýralæknis. Það var tekið sýni af húðinni og sent út til Texas. Nú er búið að rækta úr því frumur og hvenær sem við viljum og erum tilbúin að fá nýja Sám. Dorrit ákvað að gera ekki fyrr en Sámur væri allur. Ég veit ekki hvort Sámur yrði þá fyrsti hundurinn á Íslandi sem yrði klónaður.“

„Það sem mér finnst enn óhugnanlegra, ef ég má orða það þannig vegna þess að mér finnst þessi vísindi, jú jú þau eru merkileg og skemmtileg, en svo er hægt að semja við fyrirtæki um að geyma sýnin í áraraðir gegn tiltölulega vægu gjaldi. Ég hef sagt við barnabörn mín að þegar þau eru búin að stofna heimili og búin að eignast sín eigin börn þá geta þau pantað sinn eigin Sám frá Texas,“ sagði Ólafur Ragnar.

„Þetta er auðvitað dálítið óhugnanleg veröld en gerir það að verkum að þó Sámur verði allur getum við haldið áfram að hafa Sám okkur til ánægju og líka til að velja úr hverjum sé treystandi og hverjum ekki,“ sagði Ólafur Ragnar sem fyrr í þættinum hafði lýst því hvernig Sámur tók á móti ókunnugum gestum á Bessastöðum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV