„Þetta eru allt lög sem ég hef samið á svona 30 ára tímabili, lög sem ég hef verið að spila í partíum og svona, þrjú eða fjögur hafa ratað á plötur með Geirfuglunum, og svo einhver glæný,“ sagði Halldór þegar Síðdegisútvarpið bar að garði. Halldóri til halds og trausts verða góðir vinir hans. „Vinur minn Ottó Tynes sem er samferðamaður minn í músík til margra ára, Venni frá Vestfjörðum sem er mesti rokkpabbi Íslands er á bassa, Kristján Freyr á trommum, og svo er leynigestur á gítarinn sem er leikari líka, Sveinn Þórir Geirsson eða Dói.“
Upphitunarbandið er svo ekki af verri endanum, en það er pönkarinn Ceres 4. „Það eru tíðindi, hann hefur ekki verið fáanlegur til að koma fram í 15 ár, ég náði að draga hann út með töngum. Hann er mjög viðkvæmur listamaður þannig hver veit nema hann komi fram í sótthreinsunargalla til að forðast geislavirkni og sýkingarhættu.“
Rætt var við Halldór Gylfason í Síðdegisútvarpinu og hlýða má á viðtalið og heyra Dóra taka lagið í spilaranum.