Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Dómur MDE tækifæri til að afnema Landsdóm

23.11.2017 - 21:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formenn þeirra stjórnmálaflokka sem nú reyna að mynda ríkisstjórn vilja nýta niðurstöðu Mannréttindadómstólsins í máli Geirs Haarde til að gera róttæktar breytingar á lögum um ráðherraábyrgð og landsdóm.

Alþingi samþykkti einróma, með 63 atkvæðum, í september árið 2010 viðbrögð við rannróknarskýrslu Alþingis. Þar fól Alþingi forsætisnefnd Alþingis, stjórnlaganefnd og forsætisráðherra að endurskoða ýmis lög - meðal annars um Landsdóm og ráðherraábyrgð. Síðar sama dag samþykkti meirihluti Alþingis að sækja Geir Haarde til saka fyrir Landsdómi.

Lítið gert á 7 árum

Á þeim 7 árum sem liðin eru hefur lögunum þó ekki verið breytt. Einu tilraunina sem gerð var er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár. Þar er skerpt á ráðherraábyrgð, landsdómur afnuminn og fyrirkomulaginu breytt. Það frumvarp var aldrei samþykkt og sú stjórnarskrárnefnd sem starfaði kjörtímabilið 2013 til 16 tók landsdóm ekki sérstaklega til skoðunar. Í svörum frá Dómsmálaráðuneytinu og Alþingi til fréttastofu segir jafnframt að engin vinna hafi farið fram til að breyta lögunum.

Formenn vilja nýta tækifærið og breyta

Dómur Mannréttindadómstólsins í máli Geirs Haarde í dag gæti þó komið hreyfingu á málið. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vill nota tækifærið og breyta lögum um Landsdóm: „Við ættum kannski að nota þessa niðurstöðu, þessi tímamót í þessu máli, til þess að hreinsa þetta upp, þetta fyrirkomulag að stjórnmálamenn séu settir í þá stöðu að fara með ákæruvald yfir öðrum stjórnmálamönnum“. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, vill skoða lagaumgjörð um ráðherraábyrgð: „Umgjörðin í kringum þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða á Alþingi. Það er að segja lagaumgjörðin um ráðherraábyrgð“. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, er sama sinnis: „Þetta kerfi er barn síns tíma og ég held að það eigi að vera verkefni okkar allra núna að ráðast í róttækar breytingar á fyrirkomulagi Landsdóms og ég vona að það geti skapast samstaða um það“. „Þetta er enn ein ábendingin um það að við verðum að fara að ná saman um breytingar á stjórnarskrá og saman um heildarendurskoðun á stjórnarskránni á næstu árum.“