Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dómstólaleið líkleg gegn Félagi eldri borgara

06.08.2019 - 19:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kaupendur íbúðar í blokk Félags eldri borgara leita atbeina dómstóla til þess að fá íbúð sína afhenta. Þeir reyndu án árangurs að fá lykla að íbúðinni í dag. Kaupendur gerðu kaupsamning fyrir fjórum mánuðum. Dóttir þeirra segir ekki hafa verið skýrt af hverju íbúðin hækkaði um fimm milljónir á svo skömmum tíma.

Kaupendur einnar íbúðar af um 60 í nýjum fjölbýlishúsum Félags eldri borgara í Árskógum, eldri hjón, fóru eftir hádegi í dag til fundar ásamt lögmanni sínum á Fasteignasöluna Torg til að biðja um að fá lykla afhenta að íbúð sinni. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristján Ingvarsson - RÚV

„Við vorum að vonast til þess að það væri hægt að leysa málið fljótt og örugglega en það reyndist ekki vera. Það er ærið verkefni sem að bíður okkar. Mikið vandamál þarna hjá Félagi eldri borgara en það er skoðun minna umbjóðenda að það sé úrlausnarefni þeirra; verktakans, fjármögnunaraðila og Félags eldri borgara að leysa úr þessari stöðu sem komin er upp,“ segir Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður. 

Hver eru þá næstu skref?

„Breytist ekki afstaða félagsins innan tíðar að þá er sá eini kostur í stöðunni að leita lögbundinna úrræða sem felast þá í því að krefjast beinnar aðfarar og fá íbúðina afhenta.“

Það verður gert fyrir dómstólum samkvæmt lögum um aðför þar sem segir meðal annars að ef manni er með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda, sem hann telji sig eiga, biðji hann héraðsdómara um að hann fá réttindi sín, þ.e.a.s. íbúðina í þessu tilfelli, með aðfarargerð. Annar íbúðareigandi hefur gefið Félagi eldri borgara frest til morguns að fá lykla sína ellegar fari hann sömu leið. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristján Ingvarsson - RÚV

Hrefna Lind Ásgeirsdóttir dóttir kaupendanna segir að foreldrum sínum líði illa, þau sofi illa og séu miður sín yfir málinu. Þeir eru húsnæðislausir, búslóðin í geymslu og þau á dýnu í herbergi barnabarna. Vertakinn MótX mun vera með lyklana. Landsbankinn fjármagnar verkið. Félag eldri borgara vill ekki afhenda þeim íbúðina nema þau greiði 5 til 6 milljónir króna umfram það sem stendur í kaupsamningi. Samtals vantar 400 milljónir og hefur þeirri upphæð verið skipt hlutfallslega jafnt á íbúðirnar og kaupendunum sendur reikningurinn. 

„Af hverju 400 milljónir, af hverju ekki 300, 500? Hverjar eru forsendurnar sem fólk er að gefa sér þarna? Hvernig breyttust þessar forsendur þegar foreldrar mínir skrifuðu undir kaupsamning fyrir fjórum mánuðum? Hvernig hafa forsendur breyst til dagsins í dag? Hvað var fólk að reikna út vitlaust?“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristján Ingvarsson - RÚV

Stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík kom saman til fundar síðdegis í dag til að fara yfir málið. Skömmu fyrir klukkan sjö í kvöld boðaði framkvæmdastjóri félagsins að fréttatilkynning væri væntanleg innan skamms.